Fréttablaðið.is greinir frá niðurstöðu könnunar sem Prósent framkvæmdi dagana 17. – 31. ágúst sl. þar sem kemur fram að helmingur fólks sé andvígur því að dýr séu geymd á bílaþilfari Herjólfs á meðan siglingum stendur.

Öryggi dýra var til umræðu í fjölmiðlum fyrir nokkru, og þá ekki síst í kjölfar þess að bílalyfta Herjólfs féll fyrir mistök á meðan siglingu stóð og skemmdust bílar í kjölfarið, Eyjafréttir greindu fyrst frá. Má teljast heppni að ekkert dýr var í bílunum sem urðu undir lyftunni.

Nokkrir bílar skemmdust í slysinu, en þessi fór verst.
Engin spurning hvernig gæludýri hefði reitt af um borð í þessum bíl.

Formaður Dýravinafélagsins í Vestmannaeyjum hefur greint frá því í samtali við Vísi.is að dýr hafi dáið vegna á­lags og kvíða eftir veru á bíla­þil­fari ferjunnar.

Í könnuninni var eftir­farandi spurning lögð fyrir fólk:
Hversu hlynnt(ur) eða and­víg(ur)(t) ertu því að gælu­dýr séu geymd niður á bíla­þil­fari ferjunnar Herjólfs?

48 prósent svar­enda voru and­víg, 17 prósent voru hlynnt því að geyma gælu­dýr á bíla­þil­fari og rúm­lega þriðjungur, eða 35 prósent, tók ekki af­stöðu.

Nú kemur fram á heimasíðu Herjólfs að gæludýr séu velkomin um borð, á bíladekki – ýmist í bíl eiganda eða búri. Einnig sé heimilt að taka dýr um borð til að fara með þau beint út á útisvæði, en ferðast skuli með dýrið um skipið í búri.

Þeir gæludýraeigendur sem hafa rætt málið við blaðamenn Eyjafrétta hafa þó bent á að erfitt, jafnvel ómögulegt sé að halda á búri sem sé 140×80 cm að stærð og 5kg að þyngd, með 30kg hund innanborðs.

Ljóst er að málinu er langt í frá lokið af hálfu dýravina í Vestmannaeyjum.