Pysjutímabilið virðist hafa náð hámarki fyrir um tíu dögum, en nú er búið að skrá tæplega tvö þúsund pysjur inn á vefinn lundi.is. 

Mynd: lundi.is

En nú þegar líður að lokum pysjutímabilsins má búast við að þeim pysjum fjölgi sem eru litlar, léttar og vel dúnaðar. Þetta gerist á hverju ári, en vegna þess að meðalþyngdin í ár er óvenju lág, eru þessar litlu pysjur óvenju margar núna og sumar mjög léttar.

Mynd: pysjueftirlitið

Þessi pysja, sem fannst þann 11. september á Friðarhöfn, var aðeins 140 grömm og nánast aldúnuð. Hún hefur verið mjög dugleg að éta og má nánast sjá hana stækka.

Sea Life Trust tekur á móti þessum litlu pysjum þar sem vel er hugsað um þær. Þegar pysjurnar eru lausar við dúninn og orðnar nógu þungar fara þær í sundpróf. Þar er gengið úr skugga um að þær séu vatnsheldar. Þá er fyrst hægt að sleppa þeim til sjávar.
Það er mikil hætta á því að pysjur sem eru í haldi í einhverja daga missi fituna úr fiðrinu og geti því ekki haldið vatni nægilega vel frá líkamanum. Þegar svo er komið eiga þær ekki miklar líkur á að lifa þegar út á haf er komið. Það er því afskaplega mikilvægt að halda pysjum ekki að ástæðulausu.

Þetta kemu fram á facebook síðu pysjueftirlitsins.