„Við viljum góðfúslega benda farþegum okkar sem ætla sér að ferðast með okkur á morgun laugardag að spáð er hækkandi ölduhæð þegar líða tekur á kvöldið, en um kl. 21:00 annað kvöld er gert ráð fyrir 3 metra ölduhæð við Landeyjahöfn,“ segir í tilkynningu frá Herjólfi. Ástæðan er skítaveður um helgina, fyrsta alvöru haustlægðin sem dembir yfir okkur stífri suðvestan átt í byrjun og snýr sér yfir í norðvestan hroða á sunnudaginn.

„Að því sögðu hefur verið ákveðið að seinni partinn á morgun siglir Herjólfur eftirfarandi ferðir:

Frá Vestmannaeyjum kl. 17:00

Frá Landeyjahöfn kl. 20:45

 

Aðrar ferðir það kvöld falla úr áætlun, það er að segja kl. 19:30 og 22:00 frá Vestmannaeyjum og kl. 18:15 og 23:15 frá Landeyjahöfn. Ef gera þarf frekari breytingar á áætlun, þá gefum við það út um leið og það liggur fyrir.

Sunnudagur 25.september:

Á sunnudagsmorgun er spáð vestan 20 metrum á sekúndu og hátt í 5 metra ölduhæð í Landeyjahöfn, því er ansi líklegt að Herjólfur komi til með að sigla til Þorlákshafnar þann dag. Við gefum frá okkur frekari tilkynningu seinnipart laugardags varðandi siglingar á sunnudag. Hvetjum við farþega til þess að bóka í öruggar ferðir sem flytjast sjálfkrafa milli hafna þennan dag og fylgjast vel með miðlum okkar.

 

Þeir farþegar sem ætla sér að nýta gistirými ferjunnar eru minntir á að þeir þurfa að koma með sinn eiginn búnað,“ segir í tilkynningunni.