Ekkert bendir til annars en að ÍBV mæti úkraínska liðinu Donbas í annarri umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik í upphafi næsta mánaðar. Leikirnir hafa verið settir á dagskrá í Vestmannaeyjum 5. og 6. nóvember. Skiljanlega verður ekkert af heimaleik Donbasliðsins sem er í með bækistöðvar í Maríupól sem um þessar mundir er hernumin af rússneska innrásarhernum.

Í stað þess að leika heimaleik sinn í nágrannalöndum Úkraínu óskaði talskona félagsins sem verið hefur í sambandi við Eyjamenn eftir að leika heimaleikinn í Vestmannaeyjum.

Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, sagði í samtali við handbolta.is í morgun að nokkurn tíma hafi tekið að komast í samband við forráðamenn Donbas. Fyrst hafi hann komst í samband við umboðsmann liðsins sem staddur er í Þýskalandi en síðar hafi fulltrúi forseta félagsins haft samband við sig. Eftir það hafi hjólin tekið að snúast sem lauk með samkomulagi um leiddar verði lyktir beggja leikja í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum 5. og 6. nóvember.

Donbasliðið sat yfir í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar á sama tíma og ÍBV lék við og vann HC Holon frá Ísrael í tveimur viðureignum í Vestmannaeyjum fyrir um mánuði.