Ég er að æfa fótbolta með Leikni í 6. flokki. Mér finnst líka rosalega gaman að fara með pabba mínum á sjóinn einu sinni á ári. Svo finnst mér bara gaman að leika mér með vinum mínum og vera í tölvunni.“

– Hvað langar þig til að gera í framtíðinni?

„Mig langar til að vera skíðakappi eða fótboltamaður eða bara hvort tveggja.“

Þessi orðaskipti áttu sér stað í apríl 2006 í viðtali Morgunblaðsins við Arnar Inga Kristgeirsson, átta ára sigurvegara í svigi á skíðamóti kenndu við Andrés önd í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar.

Þannig voru fyrirheit snáðans þá en þegar á reyndi togaði sjórinn meira í hann en snjórinn. Arnar Ingi byrjaði sjómennsku sína á línubátnum Tjaldi SH árið 2015 og munstraði sig svo sem háseta á netabátinn Kap II VE árið 2017 um leið og faðir hans, Kristgeir Arnar Ólafsson, tók við sem skipstjóri á Kap II.

Nú hefur framtíðarleiðin verið mörkuð og blúndulögð. Arnar Ingi hóf í haust nám í Skipstjórnarskólanum sem heyrir undir Tækniskólann í Reykjavík. Hann útskrifast að fjórum árum liðnum að öllu óbreyttu og nýtur stuðnings í náminu frá Vinnslustöðinni í samræmi við samning sinn við fyrirtækið frá því í sumar. Vinnslustöðin hefur gert fleiri hliðstæða samninga við nemendur í skipstjórnar- eða vélstjórnarnámi sem er báðum aðilum í hag. Nemendum er léttur fjárhagslegur róður í náminu en Vinnslustöðin tryggir sér starfskrafta þeirra í tiltekinn fjölda ára að námi loknu. Arnar Ingi segir að þetta fyrirkomulag sé afgerandi mikilvægt fyrir sig.

„Ég hef ekki verið samfellt á Kap II frá 2017 heldur komið og farið og prófað að vinna í landi en það virkaði bara alls ekki fyrir mig.

Á sjónum er meira aðhald og agi, sem hentar mér betur. Í landi er svo auðvelt að tilkynna sig veikan að morgni, snúa sér svo til veggjar og kúra áfram. Menn komast ekki upp með slíkt úti á sjó.

Vissulega tók það mig tíma að ná almennilega áttum en ætli verði ekki að segjast að pabbi hafi komið okkur bræðrum báðum í skipstjórnarnámið, mér og bróður mínum, Einari Kristni sem er þremur árum eldri og starfar sem 2. stýrimaður á Samherjaskipinu Björgu EA-7. Pabbi benti okkur stöðugt á að mennta okkur á hvaða sviði sem væri en starfsvalið yrði alltaf okkar. Við ættum að velja á eigin forsendum en ekki hans.

Ég kynntist auðvitað sjómennskunni fyrst í túr með pabba á Valdimar GK. Þá var ég líklega sjö ára gamall. Ég var settur í uppþvottahanska og síðan beint út á dekk.“

– Pabbaáhrifin virðast í þínu tilviki vera býsna víðtækari en að taki til námsvalsins eingöngu því þið hafið verið lengi saman til sjós á Kap II. Hvernig gengur þér að lynda við pabba gamla sem skipstjóra?

„Afskaplega vel, það er bara geggjað að vinna með honum og við erum alltaf að atast eitthvað hvor í öðrum. Ég lít upp til hans og hef alltaf gert. Lítum við annars ekki alltaf upp til pabbanna á yngri árum?

Við erum mjög samrýmdir og hann er í raun og veru besti vinur minn.“

– Þegar þið leggið frá bryggju á Kap II, breytist pabbinn þá í „karlinn“?

„Það fer nú eiginlega eftir því í hvernig skapi ég er þá stundina. Stundum er hann „karlinn“, stundum „gamli“ en ætli hann sé ekki vanastur því að ég gargi á hann sem „Geira“ úti á sjó.“

Sonurinn er „góður stjórnandi með blússandi námsáhuga“

Kristgeir Arnar, skipstjóri á Kap II, segist hafa kynnt sjómennskuna fyrir sonunum tveimur ungum en lagt jafnframt að þeim að ákveða sjálfir framtíð sína á vinnumarkaði.

„Ég sagði alltaf við þá: Mér er sama hvað þið gerið í lífinu en fyrir alla muni menntið ykkur, synir sælir.

Báðir fóru þeir með mér fyrst á sjó sjö til átta ára gamlir en framhaldið varð einstefna hjá þeim eldri, Einari Kristni. Hann fór í skipstjórnarskóla að skíðaferlinum loknum og útskrifaðist 2019.

Arnar Ingi var óráðinn framan af en þegar hann ákvað að hefja skipstjórnarnám var það tekið með trukki. Ég hef aldrei fyrr skynjað svo mikinn námsáhuga hjá drengnum sem nú.

Áhugavert er líka að fylgjast með honum til sjós í seinni tíð því á daginn kemur að hann er mjög góður stjórnandi um borð. Það kemur sér vel síðar meir, bæði fyrir hann sjálfan og aðra.

Sjálfur er ég skipstjórasonur og fékk ungur að fara á sjó með pabba til að kynnast tilverunni þar. Hann sá hins vegar ekki fyrir sér neina framtíð í sjómennskunni fyrir son sinn og reyndi að koma mér ofan af því að leggja þetta starf fyrir mig en stjórnaði mér bara ekki í þeim efnum.

Ég fékk það í gegn að skrá mig sem háseta hjá pabba á Gullfaxa SH-125 og fór á sjó sem slíkur daginn eftir ferminguna. Hvorki hef ég séð eftir þeirri ákvörðun né litið nokkru sinni til baka því sjávarútvegurinn er svo heillandi og skemmtilegur starfsvettvangur.“

Skíðamennska og rokktónlist

Í upphafi þessarar samantektar er vitnað í upprennandi skíðamann og sigurvegara á Andrésar andar-leikunum. Óhjákvæmilegt er að fara fleiri orðum um skíðamennskuna í fjölskyldunni sem um er rætt. Þar er af mörgu og miklu að taka og má ekki seinna vera að nefna líka til leiks eiginkonu Kristgeirs Arnars, Ernu Pálmey Einarsdóttur. Þau hjón hafa bæði áhuga á skíðum og komu sonunum sínum tveimur á bragðið bráðungum, segir skipstjórinn.

„Strákarnir hófu ferilinn á bakinu á mér í Bláfjöllum átta mánaða gamlir og byrjuðu sjálfir að skíða þriggja ára og æfðu lengi með ÍR.“

Arnar Ingi segir að móðir sín hafi keppt á skíðum á sínum tíma og hún hafi ekki síður en pabbinn kveikt hjá sér skíðaáhugann.

„Ég stundaði skíðin til sautján ára aldurs og Einar bróðir þar til hann var tuttugu og eins árs. Við æfðum lengi vel hjá ÍR í Bláfjöllum en gengum síðan báðir í Skíðafélag Akureyrar og æfðum og kepptum fyrir það félag þar til skíðaferlinum lauk.“

Óhætt er að segja að bræðurnir Kristgeirssynir hafi verið margfalt meira en meðalmenn í skíðabrekkunum. Báðir voru þeir sigursælir á leikum Andrésar andar á Akureyri ár eftir ár en síðan unnu þeir ótal meistaratitla í svigi og stórsvigi og Einar Kristinn var á hátindi ferils síns í skíðalandsliði Íslands í alpagreinum. Hann keppti til að mynda bæði á Vetrarólympíuleikum í Sotsí í Rússlandi 2014 og á heimsmeistaramóti í alpagreinum í Vali í  Bandaríkjunum 2015.

Í ljósi þessa kemur eiginlega ekkert á óvart að svarið sé stutt, einfalt og skýrt þegar Arnar Ingi er inntur eftir því hvort hann rækti einhver hugðarefni til hliðar við sjómennskuna:

„Ég hef engin önnur áhugamál en þau að koma syni mínum á skíði og kveikja í honum skíðamennskubakteríuna. Sonurinn heitir Alexander Einar og er sex ára.“

 

Og svo er það rokkið.  Einar Kristinn og Arnar Ingi tóku foreldrana með sér til Englands í sumar til að sjá og heyra þýsku stórsveitina Rammstein á tónleikum. Sú upplifun var slík að þegar hefur verið bókuð ferð á tónleika Rammstein í maí 2023. Þá verður mamman heima, þetta verður hreinræktuð strákaferð.

Í millitíðinni fara feðgarnir til Hollands, á tónleika finnsku hljómsveitarinnar Nightwish. Þetta metalband, stofnað 1996, blandar saman klassískan óperustíl og þungt rokk í kröftugan kokkteil. Nightwish reyndi við Eurovision árið 2000 og komst alveg að þröskuldinum en ekki yfir hann, náði öðru sæti í forkeppninni í Finnlandi.

Lokaorðin á skipstjórinn á Kap II:

„Við feðgar erum mjög samrýmdir en það kom okkur foreldrunum samt dálítið að óvart þegar strákarnir fóru að draga okkur með sér á rokktónleika í útlöndum. Mikið lifandi skelfing er þetta annars gaman!“

Mynd: Feðgarnir á Kap II, Arnar Ingi Kristgeirsson og Kristgeir Arnar Ólafsson.

Af vef Vinnslustöðvarinnar – vsv.is þar sem sjá má fleiri myndir.