Stefán Sigurjónsson skósmiður, skólastjóri og stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja lést þann 1. október sl.
Stebbi skó flutti til Vestmannaeyja fljótlega eftir gos og óðara gekk hann í Lúðrasveit Vestmannaeyja. Hann var lipur hljóðfæraleikari, léttur húmoristi og snöggur til svars en þessir eiginleikar eru einmitt mjög góðir í lúðrasveit. Fljótlega valdist Stebbi til trúnaðarstarfa innan sveitarinnar og leysti hann af sem stjórnandi árið 1976-1977. Stebbi var hvers manns hugljúfi og bar hann ávallt hag sveitarinnar fyrir brjósti. Árið 1988 tók hann við stjórn sveitarinnar og í mörg ár var Stebbi holdgerfingur Lúðrasveitar Vestmannaeyja út á við. Hann var óþreytandi við að halda félagsskapnum saman þegar á móti blés, og er óhætt að fullyrða að Lúðrasveit Vestmannaeyja hefði ekki verið starfandi allan þennan tíma ef ekki hefði verið fyrir Stebba og fjölskyldu.
Árið 2007 lét Stebbi af stjórn Lúðrasveitarinnar að eigin ósk en þá var sjúkdómurinn farinn að trufla verkefnin sem starfinu fylgdu. Stebbi hélt samt áfram að spila og starfa með sveitinni og vera þessi góði félagi sem hann var öll þessi ár. Stebbi var sæmdur gullmerki Lúðrasveitar Vestmannaeyja árið 2004 fyrir óeigingjarnt starf í þágu Lúðrasveitar Vestmannaeyja og lúðrasveitarstarfs á Íslandi en í fjölda ára var Stebbi í stjórn Sambands íslenskra Lúðrasveita auk annarra trúnaðarstarfa í tónlistalífi Vestmannaeyja.
Lúðrasveit Vestmannaeyja sendir Jóhönnu, börnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur og þakkar kærlega fyrir samskiptin, spileríið og vinskapinn öll þessi ár.
Lúðrasveit Vestmannaeyja hefur ákveðið að hausttónleikar sveitarinnar í nóvember nk. verði tileinkaðir minningu Stefáns Sigurjónssonar og Ellerts Karlssonar sem einnig er fyrrverandi stjórnandi sveitarinnar en hann lést fyrr á árinu.
Fh. félaga í Lúðrasveit Vestmannaeyja
Ólafur Þ Snorrason formaður