Árið 2022 hefur verið nokkuð viðburðaríkt hjá eyjasveitinni Foreign Monkeys. Sveitin sem samanstendur af þeim Gísla Stefánssyni, Boga Ágústi Rúnarssyni og Víði Heiðdal Nenonen hefur sent frá sér þrjár smáskífur sem af er ári og sú fjórða „HIGH“ er á leiðinni 21. október nk. Enn sem komið er hafa smáskífurnar aðeins komið út stafrænt á öllum helstu streymisveitum og þeim hafa fylgt myndbönd þar sem bakgrunnurinn er náttúra og umhverfi Vestmannaeyja. Allar smáskífurnar hafa ratað á topp 5 á X-Dominoslista X-ins 977 og þar af tvær í efsta sætið.

Upptökuferlið hófst á sumarmánuðum 2020 úti í Álsey en þá hljóðrituðu félagarnir megnið af fyrrnefndum og væntanlegum lögum sem koma út saman á þriðju breiðskífu sveitarinnar, en hún er væntanleg á vormánuðum 2023 og þá bæði á vinyl og á streymisveitum.

„Náttúran og veðurfarið í Eyjum hafa alla tíð verið stórir áhrifavaldar í hljóðheimi Foreign Monkeys og eru það enn þó nú kveði við nýjan tón í lagasmíðum. Kraftmikill trommuleikur í bland við þykka gítarveggi hafa fengið að halda sér en öskur hafa vikið fyrir fleiri melódískum sönglínum og grípandi textum. Þeir félagar hafa líka verið að leika sér með rafmagnstrommur og hljóðgerfla í meira mæli en áður.

Byrjaði með Gullrótinni

Þeir félagar eru um margt ólíkir. Víðir starfar hjá Ísfélaginu við að bjarga verðmætum, Bogi smíðar hjá Steina og Olla við uppbyggingu í bæjarfélaginu á meðan að sinnir Gísli æskulýðsstarfi kirkjunnar og situr frá og með kosningunum nú í vor sem bæjarfulltrúi og það í nafni Sjálfstæðisflokksins.

„Auðvitað þykir fólki í bransanum og víðar þetta fyndin blanda“ segir Gísli. „Við erum náttúrulega mjög ólíkir en erum bestu vinir og vorum það áður en Foreign Monkeys byrjaði að starfa árið 2005“ heldur hann áfram. „Þetta byrjaði þó allt saman með Fiskiðjunni og Gullrót sem keyrði rokkeldið í hér á sínum tíma.

Árið 2006 sigraðu þeir félagar Musíktilraunir og skapaði sveitin sér nafn í rokkinu sem kraftmikið tónleikaband og gaf svo út sína fyrstu breiðskífu árið 2009. Sveitin fór í dvala í kringum 2013 en kom saman í upphafi 2019 til að senda frá sér Return, sína aðra plötu. Það kveikti í drengjunum í að halda áfram og síðan hefur boltinn rúllað að krafti.

Foreign Monkeys koma fram á Gauknum 21. október nk ásamt hljómsveitunum Hyl og Ormum sem einnig hafa náð sínum lögum hátt á lista x977. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og kostar kr. 2.500 inn.

Foreign Monkeys stefna á tónleika í Vestmannaeyjum í lok nóvember en það verður auglýst frekar þegar nær dregur.

Mynd: Þrautreyndir, Víðir, Bogi og Gísli.

Mynd Helgi Thórzhamar.