Herjólfur þurfti óvænt að fara aftur í slipp þegar upp kom bilun eftir að skipið hafði verið tekið niður úr þurrkvínni í Hafnarfirði í síðustu viku. Nú er verið að bíða eftir varahlutum til þess að ljúka við þær viðgerðir sem nauðsynlegar eru. “Þeir eru farnir út úr húsi hjá framleiðanda í Hollandi og vonast er eftir þeim seinnipartinn í dag eða snemma í fyrramálið til landsins,” var svarið sem við fengum þegar við höfðum samband við Hörð Orra Grettisson framkvæmdarstjóra Herjólfs ohf og spurðum um stöðuna á varahlutunum.

Óvíst með verklok
Hörður segir ekki auðvelt að áætla það nákvæmlega hvenær skipið kemst aftur í áætlun milli lands og Eyja. “Það er erfitt að segja nákvæman tíma að svo stöddu, en við bindum vonir við að viðgerðin taki ekki mjög langan tíma og verkið verði langt komið í vikunni.”

Sá þriðji ekki á förum
Hörður segir Eyjamenn ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að tapa afleysingarskipinu eftir þessa óvæntu uppákomu því engin tímamörk séu á því hversu lengi Herjólfur III getur verið staðsettur hér. “Samstarfið við Færeyingana hefur verið mjög gott, þeir vita að þegar skip eru í slipp getur alltaf eitthvað komi uppá og við getum haft Herjólf III þangað til slippurinn klárast.”

Uppbyggingarsjóðurvor23

Er þessi bilun eitthvað sem er eðlilegt eða kom þetta á óvart?
“Þetta kom öllum á óvart og er ekki eðlilegt, samkvæmt flokkunarfélagi skipsins eru box-kælar skoðaðir á fimm ára fresti og var það því ekki á dagskrá í þessum slipp að taka þá upp. En það má þó segja að það hafi verið lán í óláni að þetta kom í ljós á þessum tíma, Herjólfur IV var 100m frá þurrkvínni sem var laus og varaskipið Herjólfur III var klárt til að halda áfram siglingum. Hefði þetta komið upp síðar er alveg ljóst að þjónustuskerðing hefði orðið á sjósamgöngum við Vestmannaeyjar.”

Mikill munurinn í kostnaði að keyra gamla skipið
Hörður segir aðspurður töluvert hagkvæmara er að sigla Herjólfi IV en Herjólfi III. “Helsti munurinn er meiri orkukostnaður á Herjólfi III. Hann siglir eingöngu á olíu hér á milli á meðan við notum rafmagn á Herjólfi IV. Einnig erum við fleiri í áhöfn á Herjólfi III og því er launakostnaður töluvert hærri á meðan hann siglir.”