Gæðastarf og viðmið í leikskólum var til umræðu á fundi fræðsluráðs í síðustu viku en um er að ræða framhald af 2. máli 364. fundar fræðsluráðs þann 5. október 2022 er varðar gæðastarf og viðmið í leikskólum. Framkvæmdastjóri sviðs kynnti kostnaðarmat við þær aðgerðir sem faghópur lagði til.

Ráðið þakkar í niðurstöðu sinni fyrir yfirferðina og kostnaðarmatið. Fram kemur að fræðsluráð þarf lengri tíma til að meta ákveðin atriði í drögum hópsins. Ráðið leggur til að könnuð verði afstaða hagsmunaaðila varðandi ákveðna þætti í tillögum fagshópsins áður en ákvörðun verður tekin. Ráðið felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að kanna afstöðu foreldrafélaga auk þess að kanna hvaða áhrif tillögurnar hafa almennt gagnvart atvinnuþátttöku foreldra. Ráðið mun taka málið aftur fyrir þegar niðurstaða liggur fyrir.