Ónefndur viðskiptavinur sölufyrirtækisins Frescolouro í Portúgal fer ekki í jólaköttinn í ár. Frescolouro kaupir saltfisk af framleiðslu- og sölufyrirtæki Vinnslustöðvarinnar í Portúgal, Grupiexe, og selur viðskiptavinum sínum.

Sá ónefndi var svo heppinn að krækja í fisk sem vegur 12 kíló fullþurrkaður til að bera á hátíðarborð stórfjölskyldu sinnar um jólin. Ætla má að golþorskurinn hafi verið að minnsta kosti 40 kíló að þyngd upp úr sjó á sínum tíma og verið lengri með haus en sem nemur hæð brosmildu stúlkunnar á myndinni – sem reyndar er meðeigandi í Frescolouro!

Nú fer í hönd mikill annatími starfsliðs Grupiexe við að sjá veitingahúsum, verslunum og almenningi í Portúgal fyrir saltfiski fyrir hátíð jólanna. Saltfiskur er jólamatur á yfirgnæfandi meirihluta heimila í Portúgal og sá íslenski þykir sá besti og er eftirsóttur í samræmi við það.

Saltfiskur fæst líka hjá Grupiexe í gjafaöskjum handa fólki og fyrirtækjum sem vilja gleðja sína nánustu, vini eða viðskiptavini með þessari dýrindis sjávarafurð frá Vestmannaeyjum.

Af vsv.is – Atli Rúnar Halldórsson.