Herjólfur situr fastur í Þorlákshöfn eftir að bilun varð í stefnishurð ferjunnar. Farþegar hafa beðið í rúma fjóra tíma eftir að skipið, sem er tiltölulega nýkomið úr slipp, sigli af stað. Áætluð borttför úr Þorlákshöfn var 20:45 í kvöld.

„Verið er að vinna að viðgerðum. Við komum til með að senda frá okkur tilkynningu þegar Herjólfur leggur af stað með áætluðum komutíma til Vestmannaeyja. Við biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu Herjólfs.

Samkvæmt upplýsingum frá farþega sem er um borð er verið að rýma skipið en þeim farþegum sem vilja er boðið að vera áfram um borð.