„Við erum að taka inn nýjan sjóðara, 160 m2 sem kemur frá Norska fyrirtækinu Fjell. Hér er fyrst og fremst verið að horfa í rekstaröryggi, að geta haldið uppi afköstum og vonumst einnig eftir auknum afköstum. Er stærð sjóðara í verksmiðjunni þá orðin umtalsverð og með frekari fjárfestinu eiga þeir að ráða við aukna afkastagetu,“ segir Unnar Hólm Ólafsson, verksmiðjustjóri í mjöl- og lýsisvinnslu Vinnslustöðvarinnar um nýjan sjóðara sem þeir eru að taka inn.

„Í þessum sama fasa var fyrir tveim vikum tekinn inn forsjóðari sem smíðaður var hjá Héðni á Íslandi. Með honum er hugmyndin að nýta umframorku í formi varma enn betur og þar af leiðandi minnka orkuþörf þegar verksmiðjan er í framleiðslu.“

Unnar segir að verkefnið hafi byrjað í febrúar með pöntun á sjóðaranum. „Að lokinni kolmunavertíð í maí hófumst við handa að rífa út gömlu sjóðarana sem voru orðnir vel slitnir. Smíðaðar voru tvær brautir, 24 metra inn í verksmiðjuna til að koma þeim nýju á sinn stað. Líka var steypt ný plata og tveir veggir. Mikil þyngd er í svona búnaði eða um 35 tonn og þurfti að styrkja svæðið. Vonir standa til að nýr búnaður verði klár til notkunar í lok þessa árs þannig að þegar loðnan fer að nálgast Eyjar verðum við klárir,“ sagði Unnar að endingu.

Sjóðarinn tekinn í hús. Er engin smásmíði.  Myndir Addi í London.