„Við kláruðum heimasíldina um miðjan þennan mánuð. Hún veiddist vestur af Reykjanesi á sömu slóðum og undanfarin ár. Heimaey VE og Sigurður VE sáu um veiðarnar þetta haustið,“ sagði Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins.

Heimaey var með 3400 tonn og Sigurður 3500 tonn í heildina. „Þetta blandaðist að hluta við norsk-íslensku síldina í september sem veiddist fyrir austan land. Allt saman fór í frystingu hjá okkur,“ sagði Eyþór.

„Við veiddum um 6000 tonn og erum búnir að ná í okkar skammt. Huginn kom með síðasta túrinn í vikunni en aflinn skiptist á milli Hugins, Ísleifs og Gullbergs sem öll fóru tvo túra hvert,“ sagði Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar. Síldin var fryst og hluti fór í bræðslu.

Þar með er uppsjávarveiðum Eyjaskipa lokið þetta árið. Það hófst á öflugri loðnuvertíð, skipin náðu kvóta í kolmunna, makrílveiðar hefðu mátt ganga betur en veiðar á norsk-íslensku síldinni gengu frábærlega. Nú bíða menn eftir loðnuvertíðinni. Fyrsta úthlutun  veldur vonbrigðum en vonandi verður hún meiri.

Huginn VE kemur með siðasta farminn af heimasíldinni þetta árið.

Mynd Addi í London.