Gæðastarf og viðmið í leikskólum var til umræðu á fundi fræðsluráðs í liðinni viku. Fræðslufulltrúi fór yfir minnisblað sem skýrir frekar tillögu starfshóps um gæðastarf og viðmið í leikskólum. Lagt er til að sérkennslustjórar starfi við leikskólana í 80% stöðuhlutfalli í stað sérkennara í 50% stöðuhlutfalli. Aukinn kostnaður við þessa breytingu, skv. því sem fram kemur í minnisblaði og áður kynnt af framkvæmdastjóra sviðs, er áætlaður kr. 8-9 milljónir á ári.

Fræðsluráð þakkar í niðurstöðu sinni yfirferðina og samþykkir sérkennslustjórastöður við leikskólana frá 1. janúar 2023 svo starfslýsing sé í samræmi við kröfur og verkefni sem felast í starfinu. Jafnframt samþykkir ráðið að hækka stöðugildi til sérkennslumála í leikskólum úr 50% í 80% frá 1. janúar 2023 svo halda megi uppi markmiðum og áherslum um snemmtæka íhlutun samhliða fjölgun barna í leikskólunum og hlutfallslega fleirum sem þurfa á sérkennsluúrræðum að halda. Þá hefur verkefnum fjölgað töluvert, m.a. vegna tilkomu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Mikilvægt er að kostnaður við þjónustuaukningu sem er tengdur farsældarlögum verði sóttur til ríkisins. Framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs er falið að gera ráð fyrir aukakostnaði í fjárhagsáætlun næsta árs.

Minnisblað_sérkennslustjóri leikskóla í 80.pdf