Á milli jóla og nýárs var tilkynnt um samruna Ramma hf á Siglufirði og Ísfélags Vestmannaeyja undir nafninu Ísfélagið. Í þessu eru auðvitað mikil tíðindi en bæði fyrirtæki hafa verið burðarásar í íslenskum sjávarútvegi um árabil. Í nýjasta tölublaði Eyjafrétta er rætt við Ægi Ólafsson, formann Sjómannafélags Ólafsfjarðar

Ægir Ólafsson

„Maður getur ekki mikið tjáð sig á þessari stundu en auðvitað eru þetta mikil tíðindi fyrir okkur hér í Fjallabyggð því allur kvóti Ólafsfjarðar og Siglufjarðar er í eigu Ramma,“ sagði Ægir þegar Eyjafréttir ræddu við hann.

Frystiskipið Sólberg ÓF sem er í eigu Ramma og eitt glæsilegasta og afkastarmesta skip íslenska flotans fór í sinn fyrsta túr á þessu ári á mánudaginn. „Þá fundaði útgerðin með áhöfninni og tók ég þátt í spjallinu. Auðvitað vakna margar spurningar en okkur var sagt að engar breytingar verði. Stefnt er á að sameinað félag fari á hlutabréfarmarkað sem tekur sinn tíma. Þá kom fram að bæði Ísfélag og Rammi séu fjárhagslega sterk fyrirtæki og vel rekin. Að öðru leyti er lítið hægt að segja um framtíðina en það var fullyrt á fundinum að Sólberg verði áfram ÓF.“

Nánar er fjallað um sameininguna félaganna í nýjasta tölublaði Eyjafrétta þar má einnig finna lengra viðtal við Ægi.