Njáll Ragnarsson

Á margan hátt má segja að samtakamáttur Vestmannaeyinga sé eitt af einkennum okkar sem hér búum. Þetta er vissulega ekki alltaf sýnilegt en þegar vel er að gáð koma fjölmörg dæmi þess glögglega í ljós.

Eitt lítið dæmi um þetta er samtakamáttur ferðaþjónustuaðila hér í bæ sem ákváðu árið 2019 að í stað þess að hver væri í sínu horni að kynna sig og reyna að laða fólk í ævintýraferðir til Eyja, væri ferðaþjónustan sterkari ef fyrirtækin ynnu saman. Sameinuð leituðu þau síðan til bæjarins sem kom með þeim í farsælt kynningar- og markaðsátak sem komu Vestmannaeyjum rækilega á kortið. Í heimsfaraldrinum urðu Vestmannaeyjar þannig einn helsti áfangastaður íslenskra ferðalanga.

Samtakamáttur ferðaþjónustunnar er til algerrar fyrirmyndar. Þar sjá fulltrúar fyrirtækjanna hvorn annan ekki sem samkeppnisaðila heldur samherja í því að kynna Vestmannaeyjar fyrir gestum okkar. Bærinn hefur byggst upp sem spennandi áfangastaður fyrir löndum okkar og erlendum ferðamönnum. Svo vel hefur tekist til að víða annars staðar á landinu horfa ferðaþjónustuaðilar með aðdáunaraugum til Vestmannaeyja um það hvernig hægt sé að ná árangri.

Á komandi ári verða 50 ár liðin frá Eldgosinu í Heimaey og 60 ár liðin frá Surtseyjargosinu. Báðir þessir atburðir mótuðu samfélagið hér í Eyjum um ókomna tíð. Fyrir einhvern undraverðan kraft tóku bæjarbúar höndum saman, mokuðu bæinn upp og byggðu hann upp. Samtakamátturinn var slíkur að þegar kallið kom voru verkefnin leyst stór og smá þar sem allir lögðust á eitt. Bæjarbúar sýndu þá vel að þegar við stöndum saman er fátt sem stöðvar okkur.

Til að minnast þessara atburða verður næsta sumar afhjúpað listaverk Ólafs Elíassonar um Heimaeyjargosið. Verkið mun vafalaust vekja mikla athygli langt út fyrir landsteinana enda einn fremsti listamaður heims á sínu sviði sem mun skapa stórkostlega upplifun fyrir alla þá sem heimsækja okkur. Enn bætist því við þá fjölbreyttu flóru afþreyingar, menningar og náttúru sem hér er að finna.

Ég óska bæjarbúum öllum farsældar á komandi ári og þakka fyrir það liðna.

Njáll Ragnarsson