Annað tölublað Eyjafrétta á þessu ári kemur út í dag og er eðlilega helgað því að á mánudaginn, 23. janúar minnumst við þess að 50 ár eru frá upphafi goss á Heimaey. Líka er spáð í spilin á HM í handbolta þar sem við eigum verðuga fulltrúa.

Í blaðinu eru ávörp frá forseta Íslands, borgarstjóranum í Reykjavík og Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra.

Helgi Bernódusson er með yfirgripsmikla grein, Gosnótt í Georgíu. Hann var í háskóla í Bandaríkjunum þegar gos hófst og segir m.a. frá fyrstu fréttum sem hann fékk um gosið sem voru heldur svakalegar. Um sumarið var hann heima í Eyjum og vann við hreinsun bæjarins og leysti af á afgreiðslu Herjólfs.

Sagt er frá viðbrögðum oddvita flokkanna sem þá voru í bæjarstjórn og fréttum Ríkisútvarpsins fyrstu klukkutíma gossins. Vinnslustöðin á sér merka sögu í gosinu sem Atli Rúnar Halldórsson lýsir í skemmtilegri grein.

Við fengum spekinga til að spá í spilin á HM  og margt fleira er að finna í blaðinu.

Eyjafréttum er dreift í meira upplagi og geta áhugasamir tekið blaðið á útsölustöðum okkar, Kletti, Tvistinum og Krónunni.