Kæru Vestmannaeyingar nær og fjær!

Borgarráð bauð Vestmannaeyjabæ að verða heiðursgestur Menningarnætur í Reykjavík í ágúst 2023 í tilefni af 50 ára goslokaafmæli og langvarandi vinatengslum bæjarfélaganna. Undirbúningur er þegar hafinn og mikil tilhlökkun í loftinu.

Fáir atburðir hafa styrkt tengsl Eyja og Reykjavíkur meira en gosið í Heimaey. Á einni nóttu gjörbreyttist veruleiki Eyjamanna þegar eldsumbrotin hófust og flytja þurfti um fimm þúsund flóttamenn, um 2,5% landsmanna á þessum tíma, á nokkrum klukkutímum til fastalandsins. Reykjavík tók eðli málsins samkvæmt við flestum þeirra. Þessi giftusamlega björgunaraðgerð er fordæmalaus í Íslandssögunni.

Uppbyggingarsjóðurvor23

Til að rifja upp söguna þá fundaði borgarráð 23. janúar 1973 og bókaði að ráðið„sendir Bæjarstjórn Vestmannaeyja og Vestmannaeyingum öllum samúðarkveðjur vegna þeirra alvarlegu atburða, sem nú hafa gerzt í Vestmannaeyjum.  Borgarráð lýsir jafnframt ánægju sinni yfir því, hversu vel hefur tekizt með brottflutning íbúa Vestmannaeyja og að skipulag hjálparstarfsins skuli hafa tekizt jafn giftusamlega og raun ber vitni um. Hefur skipulag almannavarna vel staðist þessa raun, en fjöldi sjálfboðaliða hefur í dag unnið við þetta hjálparstarf og vill borgarráð færa þeim sérstakar þakkir fyrir. Borgarráð býður þá Vestmannaeyinga, sem til Reykjavíkur hafa komið, velkomna til borgarinnar, þó undir óskemmtilegum kringumstæðum sé. Borgaryfirvöld eru reiðubúin til allrar þeirrar aðstoðar, sem mögulegt er að veita, til að því fólki, sem nú dvelur hér, megi líða sem bezt og vænta þess að Reykvíkingar allir séu reiðubúnir til aðstoðar.“

Borgarráð samþykkti einnig á þessum fundi að bjóða bæjarstjórn Vestmannaeyja aðstöðu í Hafnarbúðum fyrir bækistöð og skrifstofu, endurgjaldslaust. Hafnarbúðir urðu aðal samkomustaður og upplýsingamiðstöð Vestmannaeyinga í gosinu en Rauði krossinn flutti einnig starfsemi sína þangað.

Gott samstarf

Gott samstarf var á milli bæjarstjórnar og borgaryfirvalda á gostímanum. Krefjandi áskoranir voru víða, sérstaklega þegar kom að húsnæðismálum. Oftar en ekki opnuðu borgarbúar heimili sín og tóku á móti einstaklingum eða fjölskyldum. Bæði þeir sem voru með tengsl við Eyjar og aðrir, þar til varanlegri lausnir komu til. Alls tók Reykjavíkurborg á móti hátt í fimm hundruð skólabörnum á einu bretti inn í skólakerfi borgarinnar. Borgarráð og bæjarráð Vestmannaeyja funduðu saman 13. febrúar 1973 og fyrir fundinn var lagt fram minnisblað þar sem var að finna yfirlit yfir fyrirgreiðslu Reykjavíkurborgar og stofnana hennar við Vestmannaeyinga en hún var af ýmsum toga.

Skipulag almannavarna tók miklum breytingum í kjölfar eldsumbrotanna, ekki síst samstarf þeirra við vísindamenn. Eldgosið á Heimaey leiddi til þess að til varð hópur vísindamanna frá hinum ýmsum vísindastofunum sem fékk vinnuheitið Vísindaráð almannavarna. Hefur þessi hópur í gegnum tíðina verið almannavörnum tiltækur til ráðgjafar um hina ýmsu þætti náttúruvísinda og náttúruvá sem hefur reynst ómetanleg í öllu almannavarnastarfi.

Skírskotanir til samtímans eru miklar. Vegna innrásar Rússa í Úkraínu hafa ekki jafnmargir flóttamenn hrakist frá heimilum sínum í Evrópu frá seinni heimstyrjöld. Þótt þessum atburðum verði sannarlega ekki líkt saman þá endurómar samþykkt borgarstjórnar um móttöku flóttafólks vegna hinnar hörmulegu innrásar í Úkraínu andann í bókun borgarráðs vegna Vestmannaeyjagossins. Ísland hefur aldrei tekið á móti jafnmörgu flóttafólki og síðasta ár erlendis frá. Líkt og áður er Reykjavík í forystu en mikilvægt er að öll sveitarfélög leggist sameiginlega á árar. Allir Eyjamenn sem upplifðu þessa örlagaríku nótt fyrir hálfri öld hafa einstæða sögu að segja. Gosminjasafnið Eldheimar í Vestmannaeyjum er afar áhrifaríkt og geymir mikla sögu. Heimildir um eldgosið eru í útvarps- og sjónvarpsviðtölum víða um heim, prentmiðlum, vísindagreinum o.fl. En vonandi kemur að því að heildstæð útgáfa verði tekin saman um sögu Vestmannaeyjagossins.

Reykjavíkurborg býður Vestmannaeyinga nær og fjær hjartanlega velkomna á Menningarnótt Reykjavíkurborgar 2023.

 

Dagur B. Eggertsson
borgarstjóri