Ágætu Eyjamenn, landsmenn allir.

Við minnumst þess nú saman að hálf öld er liðin frá hamförum sem dundu yfir byggðina á Heimaey. Eldgos hófst öllum að óvörum. Á einni nóttu og fram eftir degi tókst að forða íbúum frá þeirri ógn sem vofði yfir. Mildi var að vel viðraði þar og þá, flotinn í höfn og flóttinn gekk vel.

Frá upphafi gætti þess eindregna vilja að þau sem það vildu myndu snúa aftur, að líf myndi aftur ganga sinn vanagang í mikilvægri verstöð, mikilvægum bæ. Allan þann tíma sem gosið geisaði var barist við ógnvaldinn. Vissulega var tjónið gríðarlegt en dugnaðarforkar björguðu þó því sem bjargað varð.

Hinn mikla örlagadag fyrir fimmtíu árum mælti forseti Íslands til Eyjamanna og þjóðarinnar allrar. Kristján Eldjárn lét í ljós þá skýru von að mannlíf myndi aftur blómgast í Vestmannaeyjum. Hann minnti líka á þann einhug sem við Íslendingar búum yfir þegar að okkur er sótt, þegar nauðsyn krefur að fólkið í landinu standi saman. „Það þarf minna en þessi ósköp,“ sagði forseti, „til að Íslendingar finni að þessi fámenna þjóð er líkust stórri fjölskyldu sem veit að það sem á einn er lagt, það er lagt á alla.“

Þessi orð eru enn í góðu gildi. Gosinu lauk og því munum við fagna með virktum í sumar. Fólk sneri margt til baka og í Eyjum er sem fyrr öflugt samfélag. Nábýlið við náttúruöflin er óbreytt en nú ættum við að vera betur búin undir hvers kyns vá. Því ráða vísindi og aukin þekking en sem fyrr skipta eining og djörfung sköpum þegar vandi steðjar að.