Guðlaugur Gíslason, bæjarfulltrúi, bæjarstjóri og þingmaður var í framlínunni þegar gos hófst á Heimaey 23. janúar 1973. Guðlaugur sat ekki auðum höndum eftir starfslok og tók sig meðal annars til og vélritaði upp allar fréttir á Ríkisútvarpinu fyrsta sólarhring gossins. Fékk allar upptökur frá fréttastofunni og sló inn á ritvélina sína. Afrakstur upp á 130 síður sem Jón Haukur, sonur Guðlaugs færði Sagnheimum í haust.

Eyjafréttir fengu leyfi Jóns Hauks til að birta sýnishorn úr samantekt Guðlaugs en í heild eru fréttir Ríkisútvarpsins þessar fyrstu klukkustundir gossins mikilvæg heimild um þann ógnaratburð sem Heimaeyjargosið var. Þessi útsending er frá klukkan fjögur gosnóttina þegar línur voru farnar að skírast en Ríkisútvarpið hóf útsendingar strax upp úr klukkan tvö um nóttina.

 Gos hafið í Vestmannaeyjum

 Þulur í morgunútvarpi: Útvarp Reykjavík. Um klukkan tvö í nótt hófst eldgos í Heimaey. Mikið hraungos er úr sprungu, sem er í brekkunni ofan við Helgafell, aðeins ofan við byggðina. Sprungan liggur frá Kirkjubæ og allt suður að Skarfatanga, sem er rétt austan við flugbrautarendann.

Og áfram er haldið: Að sögn Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings rennur hraunið einkum til austurs í sjó fram, rétt norðan Flagnatanga. Sprungan er 1500 til 1800 metra löng og er samfellt gos úr sprungunni.

Um kl. 22 í gærkvöldi urðu menn varir við jarðskjálfta í Vestmannaeyjum, en fæstir munu hafa búist við því, að eldgos væri á næsta leyti. En samkvæmt upplýsingum Sigurðar Þórarinssonar telur hann að ekki  hafi gosið á Heimaey síðustu 4000 til 5000 árin.

Fólk yfirgaf hús sín fljótlega. Konur, börn og gamalmenni fóru um borð í bátana í Vestmannaeyjahöfn, sem nú eru á leið til lands og þyrla frá varnarliðinu flutti sjúklinga úr sjúkrahúsinu. Enginn er talinn í lífshættu í Eyjum, talið er að milli 3000 til 4000 manns hafi nú yfirgefið Heimaey en íbúar þar munu vera milli 5000 til 6000.

Flugvélar frá Flugfélagi Íslands fóru í nótt til Eyja og eru fyrstu vélarnar komnar með Vestmannaeyinga til Reykjavíkur. Hálftómar flugvélar eru enn á flugvellinum í Vestmannaeyjum og eru Vestmannaeyingar beðnir að hraða sér út á flugvöllinn þar sem völlurinn verður brátt ófær. Þetta er í nýrri orðsendingu frá Almannavörnum.

Þá hafa bátar frá Þorlákshöfn og Grindavík farið til Vestmannaeyja og þrjú af skipum Eimskipafélags Íslands héldu í nótt til Eyja og verða þar laust eftir hádegið í dag.

Almannavarnir ríkisins höfðu samband við sjúkrahúsin í Reykjavík, svo og öll hótelin, og hafa beðið starfsmenn að vera við öllu búna.

 Allmargir strætisvagnar munu flytja fólk frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur og er Þrengslavegurinn lokaður allri annarri umferð.

Vandamenn brottfluttra Vestmannaeyinga í Reykjavík eru beðnir að athuga það, að ættingjar þeirra frá Eyjum verða fluttir í Árbæjarskóla og Melaskóla fyrst um sinn. Eru vandamennirnir beðnir að vitja ættingja sinna þar.

Allir mannflutningar til Vestmannaeyja eru stranglega bannaðir og er skorað á eigendur einkaflugvéla að fara ekki austur í vélum sínum.

Og svo er hér orðsending frá Landspítalanum: Von er á 30 til 40 sjúklingum til Landspítalans frá Vestmannaeyjum. Eru allar hjúkrunarkonur, sjúkraliðar og annað starfsfólk, sem aðstoð getur veitt, beðið að hafa samband við forstöðukonu spítalans.

Almannavarnir beina þeim tilmælum til fólks að vera ekki að leita vandamanna sinna frá Vestmannaeyjum. Það er búið að flytja á milli 3000 til 4000 manns frá Vestmannaeyjum til lands og það er verið að flytja þetta fólk til Reykjavíkur.

Milli 30 til 40 áætlunarbílar á vegum sérleyfishafa eru farnir til Þorlákshafnar til þess að flytja þaðan Vestmannaeyinga. Það getur leitt til þess, að sérleyfisferðir í nágrenni Reykjavíkur raskist í dag.

Þulur: – Útvarp Reykjavík. Klukkuna vantar fjórar mínútur í átta og Vestmannaeyingar, sem koma til Þorkákshafnar eru beðnir að athuga það, að þeir geta fengið hressingu í Barnaskólanum og matstofum Meitilsins og Glettings áður en þeir halda til Reykjavíkur. Öll hús í Þorlákshöfn standa þeim raunar opin, samkvæmt upplýsingum sem fréttastofan fékk núna fyrir skömmu.

 Vilhelm G. Kristinsson, fréttamaður segir frá fundi Almannavarnarráðs ríkisins og skýrði frá aðstæðum vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Það var kona í Eyjum, sem fyrst tilkynnti um gosið og hringdi í slökkviliðið þar sem hún hélt að eldur væri í húsi. Þegar svo fregnir bárust um gosið var Almannavarnarráð kvatt saman laust fyrir kl. þrjú í nótt.

Fyrsti báturinn frá Eyjum lagði  að bryggju í Þorlákshöfn um kl. 7.20 en þá voru 37 áætlunarbílar komnir þangað til þess að flytja fólkið til Reykjavíkur. Um kl. sjö var talið, að um 4000 manns hafi verið fluttir frá Vestmannaeyjum áleiðis til lands með skipum og flugvélum.

Sigurður Þórarinsson – Jarðfræðingur:

Gæti ekki haft heppilegri stefnu eða legu

Næst var rætt við Sigurð Þórarinsson, jarðfræðing sem var nýkominn frá Eyjum með Birni Pálssyni flugmanni. „Þetta er heilmikið sprungugos og sennilega mjög svipað og gosin, sem við þekkjum frá 1963 til 1967 (Surtseyjargosin). Má heita allt á þurru landi og er þess vegna hreint flæðigos. En það virðist sem sprungan liggi þannig, að hún gæti ekki, sem betur fer ekki haft heppilegri stefnu eða legu miðað við bæinn þannig að ekki er bráð hætta.“

Hraun rann í sjó

„Það er samhangandi eldur á allri sprungunni. Það má greina milli 50 til 60 eldstróka sem ná í 40 til 50 metra þeir hæstu og  mynda eiginlega samhangandi eldvegg. Hraunið leggur til suðausturs ofarlega og beint út austur af Helgafellinu, tvær stórar hraunkvíslar sem renna þversum út í sjó ofan af hömrunum.“

Ekki bráð hætta

Á öðrum stað segir Sigurður: „Ég held ekki að það sé bráð hætta og engin ástæða  fyrir panik. Flugvöllurinn er enn þá opinn og  bærinn er ekki enn þá í bráðri hættu jafnvel þó að hraun stefndi á bæinn. Rennslið ekki hraðara en það að ég tel enga lífshættu af gosinu eins og er.“

 

Alda Björnsdóttir – Var á leiðinni út þegar fréttamaður hringdi:

Bullandi rigning reyndist vera öskuregn

Það var klukkan að verða hálf fimm, að Jón Ásgeirsson talaði fyrst við Öldu Björnsdóttur og síðan Einar Val lækni Bjarnason á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum.

Alda var þá stödd á heimili sínu í Vestmannaeyjum, Túngötu 22 og var hún á leið út þegar Jón hringdi. „Við vorum komin í kápur og vorum að fara niður á bryggju, eftir ráðleggingum úr útvarpinu. Það logar voðalega mikið núna, allt í einu, þegar þú hringdir. Þetta er ansi mikið og stórkostlegt og ískyggilega nálægt okkur: Eyjan er svo lítil.

Biður bara Guð að hjálpa sér

Þarna eru allir á leið í bátana eða farnir. „Við ætluðum að vera róleg þangað til kæmi tilkynning úr útvarpinu. Við höfðum samband við lögreglu og okkur  ráðlagt að vera róleg. Núna var að koma tilkynning í útvarpinu svo að við ætlum að fara. Við erum með  fjögur börn og ætlum að drífa okkur niður á bryggju, það er ekkert annað að gera. Maður biður bara Guð að hjálpa sér.

Ég vaknaði klukkan tvö, eða tæpt tvö við brunalúður og heyrði svo í bílum og hélt að það væri að kvikna í hér nálægt. Fór fram að kíkja út um alla glugga og spekúlera. Þá sáum við mikinn eld hérna fyrir austan. Ég hélt að það væri í næstu húsum rétt fyrir austan. Ég var víst of syfjuð til þess að gera mér grein fyrir að þetta gæti verið eldgos. Mér datt það bara ekki í hug. Svo vakti ég manninn minn (Hilmir Högnason) og hann sá strax að það myndi vera eldgos. Svo labbaði hann austur um og lýsti þessu fyrir okkur. Við vorum rólegri þegar við heyrðum að þetta væri alveg austur við vita. Og það var sprunga, sem lá suður með, suður á Haugana.“

Alda sagði veður gott. „Það bjargar miklu. Nú virðist bylja á þakinu. Ég veit ekki Kíktu út… Það er allt í einu komin bullandi rigning á þakinu,“ sagði Alda en rigningin reyndist vera öskuregn. „Það er aska núna. Það bylur á þakinu núna þegar ég er að tala við þig. Við búum mjög ofarlega í bænum, upp undir Gerðisbæjunum, mjög nálægt Helgafelli sem sagt.“

Einar Valur yfirlæknir: Stóð vaktin á Sjúkrahúsinu

Einar Valur lýsti stöðu mála og undirbúningi við að koma sjúklingum og eldra fólki í flug. „Þetta verða 30 til 34 sjúklingar og svo hefur komið hingað eitthvað af öldruðu fólki,“ segir Einar Valur. Var von á tveimur þyrlum frá varnarliðinu sem gátu tekið sex liggjandi og 15 sitjandi og standandi. En flest var fólkið rúmliggjandi.

„Flutningarnir eiga alveg að geta gengið. Það á ekkert að verða því til fyrirstöðu,“ segir Einar Valur og er spurður hvort þau verði vör við gosið. „Já, það er byrjað allmikið öskufall núna, hávaði og læti. Ekkert grjót, þetta er nú bara vikurgjall.“

Óskar í Höfðanum

Hægviðri þegar gosið hófst

Næst var rætt við Óskar Sigurðsson, þá vitavörð í Stórhöfða þaðan sem sást í syðsta hluta gossprungunnar. „Gosið er eiginlega látlaust, það hleðst upp og trónar í kringum gígana. Þeir hafa mótast dálítið. Vindur er heldur að aukast, suðaustanátt, sex vindstig.

 

Í nótt var hægviðri, um eitt vindstig. Vindur liggur yfir bæinn núna. Ég sé suðurendann á sprungunni, fjóra til fimm gíga og mér sýnist mikill eldur í þeim. Svipað og var í nótt,“ sagði Óskar og var að bæta í vind.

Gengið furðuvel

Árni Gunnarsson fréttamaður Ríkisútvarpsins var kominn til Eyja og um klukkan níu um morguninn 23. tók hann viðtal við lögregluþjón austur á Urðum, stutt frá norðurenda gossprungunnar. „Sprungan hefur lengst ansi mikið frá upphafi. Það var bara einn gígur en síðan hafa bæst við bæði til norðurs og suðurs. Við sáum gosið klukkan fimm mínútur fyrir tvö og hafði kona hringt til okkar skömmu áður og sagst hafa fundið jarðskjálftakipp.

Við vorum að hringja suður til Reykjavíkur í Veðurstofuna og athuga, hvort hann hefði komið fram á mælum þar, þegar við sáum eldinn. Við kölluðum út slökkviliðið, bæði með því að setja brunalúðra í gang og í gegnum síma. Þá fór fólk að hringja í okkur. Við sögðum því fyrst að sýna stillingu og fá sér kaffisopa.“

Fréttamaður: Mér skilst, að allir hafi verið mjög rólegir og tekið þessu með ró og spekt. „Fólk tók þessu mjög vel. Núna gætu verið milli 700 og 800 manns eftir. Já, og þetta hefur gengið furðuvel. Margir neita algjörlega að fara, ætla að fara með síðustu ferð,“ sagði lögregluþjónninn og aðspurður sagði hann engan hafa farist en hestur hefði farið í einn gíginn snemma um morguninn.

Þá var rætt við mann austur á Urðum sem var ekki að flýta sér í burtu. „Nei, nei, mér liggur ekkert á, ég er alveg rólegur. Ég fór upp að Kirkjubæjum áðan. Þetta er stórfenglegt, það er ekki hægt að segja annað. Því verður ekki lýst með neinum orðum.“

Fyrstu bátarnir koma til Eyja

Einar Karl Haraldsson var í Þorlákshöfn þegar fyrstu bátarnir komu frá Eyjum klukkan sjö um morguninn.  Á bryggjunni biðu langferðabifreiðar í röðum, líklega 40 talsins og mátti þar sjá strætisvagna Reykvíkinga og bifreiðir sérleyfishafa víða að á Suður- og Suðvesturlandi. Hjálparsveitir skáta og aðrir aðilar aðstoðuðu við að koma fólkinu í land og í langferðarbifreiðar, sem flytja það áfram til Reykjavíkur.

Klukkan 20 mínútur yfir sjö var fyrsti báturinn frá Vestmannaeyjum að renna í höfn í Þorlákshöfn og það er Arnar RE 1. „Við sjáum fullt af fólki uppi á dekki, og hér úti á höfninni í Þorlákshöfn getum við séð fjölda ljósa og bendir það til að það séu margir bátar á leiðinni allir í röð,“ segir Einar Karl.

Einar Karl ræddi við Erling Pétursson, skipstjóra á Surtsey VE sem sagði 50 til 60 báta vera í flutningum frá Eyjum. Erlingur sagði að siglingin hefði gengið vel og sjólag sæmilegt.

Erlingur var spurður hvort þeir færu aftur að sækja fleira fólk. „Já, ef það er ekki allt farið. Það voru um 100 með og aðbúnaður ágætur. Fólk í kojum og á gólfum,“ segir Erlingur.

„Hér um borð í bátunum er mikið af kvenfólki, eldra fólki, börnum og jafnvel ungabörnum. Hér sé ég að verið er að bera í land um hálfs árs gamla stúlku,“ segir Einar Karl.

Texta er í sumum tilvikum hnikað til en engu breytt.

Ómar Garðarsson.

Mynd Svavar Steingrímsson.

Magnús bæjastjóri og Martin Tómasson kanna Nýja hraunið.