„Ég var nú bara hérna í stofunni að hlusta á plötur og um kvöldið var ég búinn að telja 15 jarðskjálftakippi. Svo fór ég að sofa um hálf tvö leytið um nóttina. Ég var alveg sannfærður um að þarna væri Katla að fara af stað,“ segir Magnús H. Magnússon bæjarstjóri um gosnóttina í viðtali við hann og Mörtu Björnsdóttur konu hans í Jólablaði Frétta 1987. Magnús var svo vakinn klukkan 01:57 og er Ása, kona Páls tæknifræðings í símanum.

„Hún biður mig um að líta í austur og segir að það sé ábyggilega eldur austur á eynni. Ég kíki út og sé bjarmann, sannfærður um að þarna sjáist glampinn af Kötlu en þegar ég kom út sá ég að þetta var bara hérna rétt fyrir austan.“ Marta varð að bjarga sér sjálf.

„Eftir að þetta er komið af stað, fer Magnús héðan út og ég sé hann ekki fyrr 10 dögum síðar,“ segir Marga. „Ég mátti eiga mig. Palli Zóph. og Ása komu hingað á bílnum og tóku mig og krakkana og þrjár litlar stelpur sem voru hérna í næsta húsi. Þær voru einar heima og ég tók þær að sjálfsögðu með. Við héldum til í húsinu hans Palla vestur á Illugagötu þar til við komumst í bát.“

Uppbyggingarsjóðurvor23

Fór með Fífil

„Páll var rokinn út með það sama eftir að hafa komið okkur þangað. Það leið dágóð stund þangað til hann kom æðandi og sagði að allir bátar væru farnir og við yrðum að drífa okkur. Við komumst í loðnubátinn Fífil frá Hafnarfirði og ég segist alltaf hafa farið með Fífil, en ekki Fífli og það stendur enn. Og ég held að hann hafi verið síðasti báturinn héðan, þá var klukkan orðin sex um morguninn,“ sagði Marta sem bætir við að  Magnús hafa drifið sig út til að taka myndir af gosinu, en árangurinn hafi ekki verið í samræmi við viljann.

„Það sést jú einhver eldur á myndunum, en lítið annað“, segir Marta. Foreldrar stúlknanna þriggja voru í Reykjavík og eftir margar tilraunir tókst að ná í mömmuna, varð henni illt við, hélt að eitthvað hefði komið fyrir stelpurnar, en varð ósköp fegin, þegar hún heyrði að málið var ekki alvarlegra en að gos væri hafið. Nú svo var það fólk upp á landi sem hringt var í, það hélt að Vestmannaeyingar væru að skemmta sér.

En hver voru fyrstu viðbrögð bæjarstjórans, eftir að hann hafði litið á eldstöðvarnar? „Það fyrsta sem maður hafði áhyggjur af var hvort tækist að ræsa alla íbúana og þó sérstaklega í austurbænum, en það þurfti ekki að hafa áhyggjur af því. Lögreglan gekk mjög vasklega fram í því, ók með sírenu á, um bæinn.“

Á örðum stað segir Magnús við Kristján Eldjárn forseta í mars þar sem þeir stóðu uppi á Flakkaranum. „Hann spyr mig hvort þetta sé ekki alveg vitavonlaust. Hvort það sé til einhvers að vera standa í þessu. Þá sagði ég við hann, að kannski mætti segja það en þó svo væri, teldi ég rétt að gera það sem við gætum.

Minnti hann á að barátta Norðmanna gegn Þjóðverjum hefði verið vonlaus, en ég héldi að í dag sæi enginn eftir þeim fórnum sem þeir urðu að færa. Þá sagði Kristján: -Ég skil ykkur. Mér fannst alltaf að við yrðum að gera það sem við gætum þó allt tapaðist. Það yrði ekki hægt að segja það eftir á að við hefðum ekki reynt.“

Mynd: Magnús og Marta.