Guðlaugur Gíslason, fyrrum bæjarstjóri og þáverandi þingmaður hafði ætlað til Reykjavíkur þann 22. janúar en ekki gaf til flugs. Var heima hjá sér, fann jarðskjálfta en verður ekki var við neitt athugavert fyrr en sonur hans, Gísli Geir var mættur á bifreið sinni ásamt Öddu konu sinni og þremur dætrum, Þórunni, Hörpu og Dröfn. Voru þau öll uppábúin og hélt Adda á lítilli handtösku. Eftir að hafa áttað sig á hvað var að gerast fór Guðlaugur niður á Loftskeytastöð þar sem allir símritarar voru mættir.

„Skömmu síðar fóru formenn á bátaflotanum að kalla loftskeytastöðina upp og tilkynntu að þeir væru búnir að kalla út skipshafnir sínar og ætluðu sér til Þorlákshafnar og væru reiðubúnir að taka með sér eins margt fólk og þeir teldu frekast forsvaranlegt. Var auðséð á öllu að þeir höfðu hver um sig tekið af skarið og ákveðið hvað gera skyldi og metið það svo að alltof mikill ábyrgðarhluti væri að skilja fólk eftir í bænum, a.m.k. konur og börn.“

Um nóttina skrapp Guðlaugur að Kirkjubæjum með einum af lögregluþjónum bæjarins á jeppabíl til að skoða verksummerkin. „Er það almesta svartnættismyrkur sem ég hef komið út í þegar gosmökkurinn skall yfir okkur á leiðinni til baka. Vindátt breytti sér smástund og lagðist þá gjallregnið yfir efri hluta bæjarins og svæðið þar fyrir sunnan. Ég held að þessi nótt hljóti að verða ógleymanleg öllum sem staddir voru úti í Vestmanneyjum þegar eldgosið kom þar upp,“ segir Guðlaugur og dáist að viðbrögðum bæjarbúa.

„Ég held að íbúar Vestmanneyja hafi þessa nótt sýnt alveg ótrúlegt þrek og sannað að Íslendingar eru reiðubúnir að bregðast karlmannlega við og af fullu æðruleysi þegar voveiflega atburði ber að höndum. Og þótt ótrúlegt sé heyrðist fólk jafnvel kalla sín á milli þegar niður að höfninni var komið:

Guðalaugur segir að skipstjórnarmenn í Vestmanneyjum og áhafnir þeirra hafi unnið einstætt björgunarafrek og full ástæða hefði verið  að sýna þeim sérstakan sóma, t.d. með heiðursmerkjum. Einnig hafi loftskeytastöðin og símritarar skilað sínu.

„Nóttin þegar eldgosið kom upp á Heimaey, er einhver sú örlagaríkasta sem Vestmanneyingar hafa lifað, ef undan er skilið þegar Tyrkir gengu á land í Eyjum og rændu á þriðja hundrað manns og fluttu til framandi heimsálfu og drápu á fjórða tug manna,“ sagði Guðlaugur.

Mynd: Sigurgeir Jónasson.

Guðlaugur og Sigurlaug taka á móti Olaf Palme og eiginkonu hans, Lisbeth Palme heima hjá sér í Geysi við Skólaveg.