Garðar Sigurðsson – Þingmaður og bæjarfulltrúi:

Í jólablaði Frétta 1989 var stórt viðtal við Garðar Sigurðsson sem var bæjarfulltrúi og síðar þingmaður Alþýðubandalagsins. Garðar hafði setið tvö ár á þingi þegar Heimaeyjargosið hófst, 23. janúar árið 1973. Hann ætlaði til Eyja þá um helgina en komst ekki vegna veðurs, en var í fyrstu flugvélinni sem lenti á Vestmannaeyjaflugvelli þá um nóttina.

Hvernig var þér innanbrjósts? „Ég man það ekki svo, en þetta var hræðilegt. En þegar upp var staðið var þetta alveg einstaklega vel lukkað gos ef svo má segja, að það skuli koma upp eldgos í kaupstað, enginn ferst og allir komast strax í burtu. “

Uppbyggingarsjóðurvor23

Garðar átti sæti í stjórn Viðlagasjóðs og starfaði mikið að því er laut að gosinu. Fólksflutningum, húsnæðismálunum, uppbyggingunni og bótum sem Eyjamönnum voru ætlaðar. „Menn voru hundóánægðir með bæturnar sem komu misjafnlega niður. Þær voru miðaðar við brunabótamat og þeir sem höfðu lagað húsin sín án þess að láta meta upp á nýtt fóru illa út úr þessu.“

Ein martröð allt saman

Garðar segist aldrei hafa efast um að Vestmannaeyjar byggðust á ný. „Ég var alveg viss um það og það er skjalfest, en það voru menn í Vestmannaeyjum sem voru vissir um að þetta myndi ekki blessast. Maður sá að hraunið þykknaði fljótt þegar leið á gosið, svo hallaði frá sprungunni til sjávar og einnig hafði kælingin einhver áhrif.

Það er náttúrulega mikil tilviljun að gosið kom upp austan við alla byggð. Við getum gert okkur í hugarlund hvað hefði gerst ef það hefði komið t.d í gegnum Skólaveginn. Þetta var sjálfsögðu rosalegt sjokk.

Svo komu snjóflóðin á Norðfirði rétt á eftir. Þetta var ein martröð allt saman. Það var einstök lukka að það fór ekki steinn inn fyrir hafnargarðinn og ég held að kælingin hafi haft þar einhver áhrif.“ Garðari finnst enn þann dag í dag að þetta hafi verið ansi mikið að fá þetta allt yfir sig á fyrsta kjörtímabili sínu, en áfram hélt lífið.