Rafmagn til Vestmannaeyja, forgangsorka, varaafl og rafmagnsþörf var til umræðu á fundi bæjarráðs í gær. Bæjarstjóri hefur átt í viðræðum við ýmsa aðila um ástand og áhrif af skertri raforkuafhendingu til Vestmannaeyja. Meðal annast hefur bæjarstjóri rætt við forsvarsfólk fyrirtækja í útgerð og vinnslu fiskafurða. Í þeim samtölum hafa komið fram áhyggjur af stöðu mála og óvissu um afhendingu raforku þegar vinnsla fer á fullt skrið.

Jafnframt hefur bæjarstjóri verið í viðræðum við ráðherra, þingmenn og reglulegum samskiptum við forstjóra Landsnets, HS-veitna og orkumálastjóra.

Þann 21. febrúar nk., mun orkumálaráðherra koma til Vestmannaeyja og funda með bæjaryfirvöldum. Þann sama dag munu fulltrúar Landsnets og HS-veitna koma til Vestmannaeyja. Munu þeir aðilar m.a. funda með bæjarfulltrúum og verða á íbúafundi í Eldheimum síðar þann sama dag.

Í niðurstöðu sinni um málið ítrekar bæjarráð enn og aftur nauðsyn þess að fyrirtækjum og einstaklingum í Vestmannaeyjum verði tryggð næg raforka. Áhyggjur eru af stöðunni og sérstaklega núna þegar loðnuvertíð með tilheyrandi vinnslu og notkun raforku er að hefjast.