Bæjarráð ræddi í vikunni fyrirkomulag og forsendur fyrir lokun stofnana bæjarins þegar óveður gengur yfir. Jafnframt ræddi bæjarráð um að samræma ferla vegna lokana stofnana og við hvaða forsendur skuli miðað við ákvarðanir um slíkt.

Ákveðið var að miða skuli lokanir stofnana og lokanir/frestun skólastarfs við litakerfi Veðurstofu og samráð við lögreglu. Forstöðumenn taka ákvörðun um lokanir eða skerðingu á starfsemi í samráði við bæjarstjóra og/eða framkvæmdastjóra sviða.

Ef fella á niður skólastarf eða loka stofnunum skulu þær ákvarðanir miðast við útgefna litakóða Veðurstofu Íslands og Almannavarna. Þegar um gula viðvörun er að ræða verða stofnanir opnar. Ef um appelsínugular viðvaranir er að ræða eru stofnanir alla jafna opnar og skólastarf óskert. Þjónustunotendur ákveða hvort þeir nýti þjónustuna eða ekki og foreldrar meta hvort börn þeirra mæti í skólann. Bæjaryfirvöld ákveða, eftir samráð við lögreglu, hvort til lokana þarf að koma. Ef um rauða viðvörun er að ræða, er skólastarf fellt niður og stofnanir lokaðar skv. tilmælum lögreglu og Almannavarna.

Bæjarráð felur stjórnsýslu- og fjármálasviði að upplýsa forstöðumenn stofnana bæjarins um ákvörðun þessa og auglýsa fyrirkomulagið á heimasíðu sveitarfélagsins.