Bilun kom upp í Vestmannaeyjalínu 3 þann 30. janúar og Vestmannaeyjar fá nú rafmagn að hluta í gegnum varaafl. Stór hluti af rafmagnsnotkun í Vestmannaeyjum er skilgreind sem skerðanleg orka. Það þýðir að hluti atvinnulífs, húshitun o.fl. eru nú rekin á olíu með tilheyrandi viðbótarkostnaði og umhverfismengun.

Þessi rafmagnsskortur hefur miklar afleiðingar víða í Vestmannaeyjum. Áhrifanna gætti strax á fyrsta degi hjá Herjólfi. „Eftir að strengurinn bilaði var okkur gert að stoppa alla hleðslu á Herjólfi IV við bryggju í Vestmannaeyjum og höfum við ekki hlaðið síðan hér í Eyjum. Ég geri ráð fyrir því að áfram verði hægt að hlaða skipið í Landeyjahöfn, þegar sú leið er opin,“ sagði Hörður Orri alvarlegur í samtali við Eyjafréttir. „Herjólfur IV er rafmagnsferja og flaggskip framtíðarinnar í orkuskiptum. Í þjónustusamningnum við ríkið miða fjárframlögin til rekstursins við það að skipið sigli á rafmagni til og frá Landeyjahöfn. Ljóst er að ástandið eins og það lítur út núna breytir rekstrinum töluvert, rekstrarlega og umhverfislega.“

Kolefnissporið af þessum breytingum bara hjá Herjólfi er gríðarleg. „Herjólfur notar u.þ.b. 1.250 kwh. þegar siglt er til Landeyjahafnar á rafmagni en á sömu siglingaleið notar hann 420 lítra af olíu. Samkvæmt losunarstöðlum sem Umhverfisstofnun gefur út losar Herjólfur 13 kg. af CO2 þegar hann siglir á rafmagni til Landeyjahafnar á móti 1.224 kg. af CO2 ef hann siglir sömu leið á olíu. Því er CO2 sparnaðurinn á dag um 17 tonn þegar siglt er fulla 7 ferða áætlun til Landeyjahafnar. Meðal bensínbíll losar á ári 3 tonn af CO2 ef hann keyrir 15. þús. km ári. Hagsmunirnir eru því gríðarlegir, rekstrar- og umhverfislega,“ segir Hörður.

Nánar er rætt við Hörð í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.