Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til breytinga á hafnalögum frá árinu 2003. Tilgangurinn er að innleiða ákvæði í Evrópureglugerð, sem fjallar um hafnarþjónustu, sameiginlegar reglur fyrir hafnir um gagnsæi í fjármálum og umhverfismiðaða gjaldtöku.

Með frumvarpinu er m.a. lagt til að hafnir fái heimild til að láta gjaldskrár taka mið af umhverfissjónarmiðum með vísan til orkunýtni og kolefnisnýtni siglinga. Þessir afslættir eða álögur skulu vera gagnsæjar, hlutlægar og án mismunar og samræmast samkeppnislögum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi heimild nái til allra hafna sem falla undir gildissvið hafnalaga, en ekki einungis til hafna innan samevrópska flutninganetsins.

Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni mikilvægt að heimila gjaldtöku af þessu tagi. „Með þessu verður opnað á umhverfismiðaða gjaldtöku sem hefur verið að ryðja sér til rúms í öðrum Evrópulöndum. Í dag eru einungis skemmtiferðaskip metin samkvæmt þessum alþjóðlegu vísitölum en þegar fram líða stundir gætu flutningaskip bæst við. Þannig er komið á fjárhagslegt hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari skipareksturs. Í nágrannaríkjum er byrjað að hefja gjaldtöku af þessu tagi og ef íslenskar hafnir geta ekki gert það er hætt við að útgerðir þessara skipa sendi umhverfisvæn skip til landa þar sem afslættir eru í boði en sendi skipin, sem eru óumhverfisvæn, hingað til lands,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra á Alþingi.

Samráð um gjaldtöku

Í frumvarpinu er einnig lagt til að við lögin bætist ákvæði sem skyldar höfnum innan samevrópska flutninganetsins að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína og veita upplýsingar um breytingar hafnargjald minnst tveimur mánuðum áður en breytingar taka gildi. Samhliða þessu er ráðherra falið gefa út reglugerð sem tilgreini hvaða hafnir tilheyri samevrópska flutningsnetinu hverju sinni og um veitingu hafnarþjónustu, gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði hafna.

Ákvæði Evrópureglugerðarinnar ná til allra hafna innan samevrópska flutninganetsins. Fimm íslenskar hafnir eru nú hluti af flutninganetinu: Sundahöfn, Seyðisfjarðarhöfn, Fjarðarbyggðahafnir, Vestmannaeyjahöfn og Landeyjahöfn. Einstök ríki geta þó ákveðið að reglurnar nái til fleiri hafna ef ástæða þykir, eins og gert er í tilviki ákvæðisins um umhverfismiðaða gjaldtöku.