Þann 28. apríl nk. verður haldin stórglæsileg tónlistarhátíð í Vestmannaeyjum. Hátíðin fer fram á 11 heimilum víðsvegar um miðbæ Vestmannaeyja og 15 atriði koma fram, alls 55 framúrskarandi listamenn.

Verkefnið sjálft er óhagnaðardrifið samfélagsverkefni sem unnið er í samvinnu við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabæ, Herjólf, The Brothers Brewery, Hótel Vestmannaeyjar, Höllina og Westman Islands Inn. Tilgangurinn er að búa til skemmtilegan og einlægan viðburð í lok vetrar, til að efla ferðamannatímabilið í Vestmannaeyjum og um leið efla tónlistarlíf og tónlistarmenningu Vestmannaeyinga. Hér er ekki verið að finna upp hjólið, en fyrirmyndin á verkefninu er komin frá hátíðinni „Heima í Hafnarfirði“ sem upphafleg kemur frá Götu í Færeyjum og staðfært einnig á Akranesi.

Alls hafa 11 húsráðendur í Vestmannaeyjum ákveðið að opna stofur sínar fyrir tónleikagesti og 15 atriði staðfest komu sína, þar sem uppistaðan er tónlistarfólk úr Vestmannaeyjum í bland við landsþekkta flytjendur.

Dagskrá hátíðarinnar verður frá fimmtudeginum 27. apríl til og með laugardagsins 29. apríl, þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Setning hátíðarinnar verður fimmtudaginn 27. apríl og fara stofutónleikar Hljómeyjar fram á föstudagskvöldinu. Á laugardeginum mun svo Pálmi Gunnars ásamt hljómsveit koma fram á vegum Hallarinnar, en sitthvor miðasalan mun fara fram, annars vegar á Hljómey og hins vegar tónleikana í Höllinni.

Mikilvægt er að hafa í huga að mjög takmarkað magn miða verður í boði á hátíðina, þar sem húsrúm er takmarkað.

Listamennirnir verða kynntir á næstu vikum á heimasíðu hátíðarinnar, www.hljomey.is og á Facebook síðu hátíðarinnar undir Hljómey Facebook svo við hvetjum alla til að fylgjast vel með þar. Dagskráin verður svo birt þegar nær dregur hátíðinni sjálfri.

Við kynnum leiks fyrstu þrjá listamenn hátíðarinnar:

Emmsjé Gauti

Emmsjé þarf vart að kynna, en hann hefur verið einhver stærsta rappstjarna Íslands undanfarin rúman áratug. Emmsjé er stemmningsmaður af guðs náð, einlægur og kraftmikill.

Una Torfa

Una Torfa var valin tónlistarkona ársins 2022 af Rás 2, en hún gaf út sína fyrstu hljómplötu á síðasta ári. Lögin hennar eru búin að fá mikla spilun í útvarpi og erum við ótrúlega spenntir að kynna þessa frábæru listakonu betur fyrir Vestmannaeyingum

Magnús Þór Sigmundsson

Magnús er einn allra reynslumesti laga- og textahöfundur sem Ísland á. Magnús á óteljandi lög og enn fleiri texta, sem flest okkar hafa heyrt. Magnús á textann í tveimur þjóðhátíðarlögum, Þar sem hjartað slær og Ástin á sér stað. Lög Magnúsar hafa verið flutt af Vilhjálmi Vilhjálms, Í svörtum fötum, Þú og ég, Ragnheiði Gröndal, Fjallabræðrum og fleirum.

Miðasala á Hljómey mun hefjast á föstudaginn 24. Febrúar nk. kl 12:00 á www.hljomey.is og á www.midix.is