Dregið var til undanúrslita í Powerade-bikarnum í hádeginu í gær. Kvennalið ÍBV var í pottinum að þessu sinni en undanúrslit kvenna fara fram miðvikudaginn 15. mars, þar mætast Haukar og Valur í fyrri viðureigninni kl. 18:00 en í síðar viðureigninni mætast ÍBV og Selfoss kl. 20:15.

ÍBV og Selfoss hafa mæst tvívegis í vetur og hafa ÍBV stelpur unnið báðar viðureignir nokkuð sannfærandi en liðin sitja á sitthvorum enda töflunnar. Það er þó ekkert gefið í bikarkeppni og ljóst að stelpurnar þurfa að mæta tilbúnar til leiks.

Undanúrslit karla fara fram fimmtudaginn 16. mars, fyrst eru það Fram og Haukar sem leiða saman hesta sína kl. 18:00 en síðar um kvöldið mætast Afturelding og Stjarnan kl. 20:15.

Úrslitaleikir Powerade-bikarsins fara fram laugardaginn 18. mars, í kvennaflokki verður leikið kl. 13:30 og karlaflokki kl. 16:00. Að sjálfsögðu verður öllu tjaldað til í Laugardalshöll á bikarhelginni og allir leikir sýndir í beinni útsendingu á RÚV.