Stærsta sandhverfa sem veiðst hefur við Ísland

0

Stærsta sandhverfa sem veiðst hefur við Ísland kom á land í Vestmannaeyjum þann 25. febrúar síðastliðinn en það var Drangavík VE80 sem kom með fiskinn að landi sem er 86cm á lengd 69cm á breidd og 14,3kg að þyngd slægð. Talið er að fiskurinn hafi veiðst við Ingólfshöfða.

Á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunnar kemur meðal annars fram að lögun sandhverfu er allsérkennileg. Hún er næstum kringlótt ef sporðblaðka er undanskilin. Haus er í meðallagi stór, kjaftur er stór og skoltar sterklegir en tennur eru smáar. Augu eru frekar smá. Bakuggi byrjar rétt við fremri jaðar hægra auga eða framar. Sporður er stór og bogadreginn fyrir endann. Kviðuggarætur eru langar. Hreistur vantar en í stað þess er vinstri hliðin, þ.e. sú sem upp snýr, þéttsett hvössum beinkörtum. Þessar körtur koma líka stundum fyrir á blindu hliðinni (þeirri hvítu). Rák er greinileg og myndar bug yfir eyruggum. Sandhverfan getur náð um 100 cm lengd. Sú stærsta sem hér hefur veiðst var 77 cm og veiddist við Ingólfshöfða árið 1974. Hún er þó sjaldan lengri en 50-60 cm hér við land. Það er því ljóst samkvæmt þessu að um íslandsmet er að ræða.

Fiskmarkaður Vestmannaeyja hefur keypt sandhverfuna en til stendur að stoppa upp gripinn. Sverrir Haraldsson sviðsstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar sagði í samtali við Eyjafréttir að fiskmarkaðnum hefði verið að berast mun meira af sandhverfu undanfarið en nokkurntíma áður.

Sandhverfa veiddist fyrst á Íslandsmiðum í apríl árið 1914 en þá fékkst ein á Selvogsbanka. Á árunum 1914 til 1938 voru skráðar 9 sandhverfur á Íslandsmiðum á svæðinu frá Bollasviði í Faxaflóa suður fyrir land og austur til Finnafjarðar undir Norðausturlandi.

Auk þess var vitað um fleiri sem höfðu veiðst. Engin sandhverfa var skráð á árunum 1939 til 1956 en frá 1957 til 1972 voru 19 skráðar og þar af níu árið 1972. Frá 1974 hefur sandhverfa veiðst næstum árlega hér við land og stundum fleiri en ein á ári og frá 1992 hafa borist margar sandhverfur árlega til tilrauna eldisstöðvar Hafrannsóknastofnunar í Grindavík, flestar árin 1998 og 1999 en þá fékk stöðin á þriðja tug hvort árið. Sandhverfa hefur fundist allt í kringum landið en er mun algengari í hlýja sjónum suðaustan-, sunnan- og suðvestanlands en norðan- og austanlands. Hún hefur verið talin flækingur hér á Íslandsmiðumþví aldrei hefur orðið vart eggja né seiða og mjög smáir fiskar eru mjög sjaldséðir (smæstir 30-40 cm). Fiskar þeir sem hér hafa veiðst hafa verið 30-77 cm langir.

Sandhverfa