Togarinn Breki kom í nótt til Vestmannaeyja eftir að hafa skilað sínum hlut í vorralli Hafrannsóknastofnunar, stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum. Nokkur skip taka þátt í verkefninu hverju sinni og toga á mörg hundruð stöðvum á mismiklu dýpi á landgrunninu.

Þetta hefur verið gert með sama hætti frá því árið 1985 og þannig fást sambærilegar upplýsingar um stofnstærð, aldurssamsetningu, fæðu, ástand og útbreiðslu helstu nytjastofna við landið. Jafnframt er fylgst með hitastigi sjávar og ýmsu fleiru, svo sem mengandi efnum í sjávarfangi.

Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisksviðs Vinnslustöðvarinnar, segir að Breki hafi nú tekið þátt í togararalli Hafró í fimmta sinn. Verkefnið hafi gengið vel og samkvæmt áætlun, nú sem fyrr.

„Skipið lét úr höfn að kvöldi 27. febrúar og fór um svæðið vestan og suðvestan við landið. Þar fékkst ágætur afli, aðallega þorskur. Breki kom hingað til Eyja til löndunar 8. mars og fór strax út aftur, þá til veiða fyrir sunnan og suðvestan landið. Þar fékk líka ágætur afli, mest ýsa og þorskur. Togað var á síðustu stöðvunum í gær. Þar með lauk rallinu og landað var hér í dag.

Hafrannsóknastofnun auglýsti árið 2021 eftir tilboðum frá útgerðarfyrirtækjum fyrir togara í rall. Vinnslustöðin bauð fram Breka og tilboðinu var tekið. Skipið hefur eftir það tekið þátt í vorralli þrisvar og tvisvar í haustralli. Breki hentar mjög vel í svona verkefni og samstarf okkar við Hafrannsóknastofnun er bæði gott og farsælt fyrir báða aðila.“

Víkur þá sögu að gangi mála í veiðum og vinnslu á vetrarvertíðinni nú þegar páskahátíðin er við sjóndeildarhringinn á dagatalinu með tilheyrandi sölukipp á saltfiskmarkaði Portúgala.

„Kap var á netaveiðum í Breiðafirði í febrúar en er núna við suðurströndina og landar daglega, aðallega þorski.

Drangavík er veiðir víðar við suðurströndina og afli hennar er mun blandaðri en hjá Kap.

Í heildina gengur vertíðin mjög vel og veðrið leikur við okkur.

Góður gangur er í saltfiskvinnslunni og afköst mikil þrátt fyrir að margir starfsmenn hafi verið færðir á vaktir í vinnslu loðnu og loðnuhrogna á meðan sú vertíð varir. Starfsfólk í saltfiskvinnslunni hefur því átt langa daga í vinnu en þegar nú sér fyrir enda loðnuvertíðar fjölgar starfsmönnum þar á ný. Við getum þá um leið stytt vinnudaginn.

Unnið verður af fullum krafti í saltfiskinum til páska og áfram eftir páska fram í byrjun maí en hægt á í hrygningarstoppi frá 12. til 21. apríl.“

Loðnuvertíðin hefur náð hámarki hjá Vinnslustöðinni og henni lýkur fljótlega. Enn eru óveidd um 4.000 tonn og útlit fyrir að skipin komi með síðustu loðnufarmana til lands um næstu helgi. Eftir lokalöndun má ætla að vinnslu ljúki tveimur sólarhringum síðar en að bræðslan verði lengur í gangi eða eins og þurfa þykir.

Í uppsjávarvinnslunni hefur verið unnið sleitulaust á vöktum frá 15. febrúar. Engin dæmi eru fyrr um samfellda vinnu svo lengi í loðnuvinnslu hjá VSV.

 

  • Á efstu myndinni er Carla Da Silva Martins  og þeirri næstefstu Weronika Adamczyk. Ljósmyndari: Þráinn Kolbeinsson.
  • Hreinn Magnússon tók myndirnar af Breka.