Fram kemur á vef fiskifrétta að Vinnslustöðin lætur nú hanna fyrir sig ný skip til að leysa af hólmi Kap og Drangavík til veiða í landhelginni. Við frumhönnun hefur komið á daginn að nýju skipin gætu stundað netaveiðar í dagróðrum við suðurströndina og við Eyjar fyrir rafmagni að hluta. Skipin kæmu til hafnar síðdegis eða á kvöldin og geymar yrðu hlaðnir að nóttu fyrir næsta túr að morgni.

Þarf að auka flutningsgetu raforku

„Til að draumur um rafmagnsskip í flota Vinnslustöðvarinnar verði að veruleika þarf að auka flutningsgetu raforku til Vestmannaeyja og tryggja öruggt orkuframboð hér. Á því er sannarlega brýn þörf líkt og bitur reynsla nýlega sannar,“ sagði Guðmundur Örn Gunnarsson stjórnarformaður um málið í skýrslu stjórnar.

„Bilaður strengur milli meginlandsins og Eyja sýndi hve ótryggt ástandið er. Ef sá atburður hefði átt sér stað á loðnuvertíð hefði vinnslan hér verið í algjöru uppnámi.

Við hjá Vinnslustöðinni teljum að bæta þurfi við tveimur raforkustrengjum til Eyja þannig að þeir verði alls þrír. Jafnframt þyrfti að efla spennuvirkin við báða enda, á meginlandinu og í Vestmannaeyjum, svo vel fari. Ráðamenn Landsnets, Landsvirkjunar og HS Veitna hafa einnig lýst yfir að þetta sé bæði skynsamlegt og nauðsynlegt þannig að sjónarmið okkar fara algjörlega saman í þessum efnum.“