Eftir nokkurt hlé hóf Flugfélagið Ernir flug til Vestmannaeyja um miðjan desember sl. samkvæmt samkomulagi við innviðaráðuneytið. Flogið var þrisvar sinnum í viku, tvö flug á þriðjudögum og eitt á föstudögum. Fyrsta flugið var föstudaginn, 16. desember og það síðasta í dag, föstudaginn 14. apríl.

„Samningurinn var til 31. mars 2023, en bæjarstjóri óskaði eftir við innviðaráðherra að tímabilið yrði lengt um hálfan mánuð, til 15. apríl, sem ráðherra varð við. Hins vegar hafnaði ráðuneytið beiðni bæjarstjóra um frekari framlengingu á gildistíma samningsins,“ sagði Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar.

Undanfarin ár hefur áætlunarflug til Vestmannaeyjar verið stopult og legið niðri um lengri tíma. Bæjaryfirvöld hafa margssinnis óskað eftir ríkisstyrktu flugi til og frá Vestmannaeyjum og ítrekað fært rök fyrir nauðsyn þess að halda úti flugsamgöngum og sjósamgöngum milli lands og Eyja. Jafnframt hafa bæjaryfirvöld margoft hvatt flugrekstraraðila til þess að halda úti áætlunarflugi milli lands og Eyja á markaðslegum forsendum.