Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur stofnað félagið Þingmannaleið ehf. Tilgangur félagsins er leiðsögn og ferðaþjónusta. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag.

Ásmundi þótti þetta fyrst lítið tiltökumál þegar fréttastofa RÚV náði tali af honum og benti á að hann hefði um árabil verið með ferðaþjónustufyrirtækið Laufskála á Hellu á hagsmunaskrá sinni sem þingmaður. „Þetta er bara til að ég sé með allt mitt á hreinu.“

Ásmundur er gamall leiðsögumaður og hefur stokkið til á Suðurlandinu þegar mikið liggur við. Hann hefur stundum rætt þessa hugmynd sína við hóteleigendur á Suðurlandinu og nú er svo komið að hann ætlar að taka fyrstu skrefin í sumar í samstarfi við nokkra góða menn.

Grunnhugmyndin verður einkaferð til Eyja með þingmanninum. „Ég á bústað á Suðurlandinu og ég myndi þá fara með ferðamenn til Eyja í dagsferð.“ Ásmundur er með vaðið fyrir neðan sig því hann tók leigubílaprófið í haust og fékk 10 í einkunn. „Ég er ekkert að fara kaupa heilsíðuauglýsingu í Mogganum,“ segir Ásmundur en hann reiknar með því að 90 til 99 prósent þeirra sem nýti sér þjónustuna verði erlendir ferðamenn.

ruv.is