ÍBV vann ævintýralegan sigur á FH í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum á sunnudag, 31:29, eftir framlengingu. ÍBV er með tvo vinninga og þarf aðeins einn í viðbót til þess að binda enda á rimmuna og leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð. Liðin mætast í kvöld í Kaplakrika en flautað verður til leiks klukkan 19:00.

Sem fyrr bjóða Ísfélagið og Herjólfur frítt far á leikinn. Ísfélagið býður stuðningsmönnum fría rútuferð og Herjólfur miða í ferjuna. Þegar lokað var fyrir skráningu höfðu um 150 manns skráð sig í rútuferðir samkvæmt upplýsingum frá ÍBV. Eyjamenn á höfuðborgarsvæðiunu hafa verið duglegir að sækja leiki liðsins undanfarið og því ljóst að stuðningsmenn ÍBV verða í það minnsta vel á þriðja hundrað í Kaplakrika.