Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, greindi á fundi bæjarráðs í gær frá fundi fulltrúa Vestmannaeyjabæjar með fulltrúum Landsnets þann 28. apríl sl., um stöðu undirbúnings að viðgerð á rafmagnsstreng til Vestmannaeyja sem bilaði í janúar sl. Undirbúningurinn er vel á veg kominn og áform um að ljúka viðgerðunum um mitt sumar ættu samkvæmt Landsneti að ganga eftir. Lagði bæjarstjóri áherslu á það við Landsnet að mikilvægt væri að flýta viðgerðinni eins og kostur er því framundan eru álagspunktar í atvinnulífinu. Þá benti bæjarstjóri á að það sé líka algerlega óásættanlegt að samfélagið sé keyrt að hluta á olíu. Fulltrúar Landsnets skilja mikilvægið og munu kappkosta við að flýta viðgerðinni eins og kostur er.