Boðað hefur verið til verkfalls hjá starfsmönnum hafnarinnar sem eru í Stafey dagana 25. maí, 1. júní og 8. júní. Verkfallið hefur áhrif á ákveðna þætti í rekstri hafnarinnar eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Vestmannaeyjahöfn. Ef af þessu verkfalli verður, þá verður ekki hægt að taka á móti flutninga- og skemmtiferðaskipum þessa daga frá kl. 00:00 til 23:59. Einnig verður ekki hægt að vigta á færanlegum vigtum hafnarinnar. Önnur þjónusta ætti að vera með eðlilegum hætti. Verkfallið mun ekki hafa áhrif á siglingar Herjólfs þessa daga og áætlun Herjólfs því óbreytt.