Búið er að staðfesta leiktíma á úrslitaleikjum Olísdeildar karla og kvenna sem fram fara í Vestmannaeyjum á laugardaginn. Verðurútlit hefur oft verið betra og hugsanlegt er að sigla verði frá Þorlákshöfn og aftur til baka um kvöldið klukkan 18.

Fyrsti úrslitaleikur ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitil karla hefst klukkan 13. Þriðja viðureign ÍBV og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki hefst klukkan 15.30.

Valur hefur tvo vinninga og verður Íslandsmeistari með sigri í leiknum. Ef ÍBV vinnur mætast liðin í fjórða sinn í Origohöllinni á þriðjudagskvöld og loks í fimmta og allra síðasta sinn laugardaginn 27. maí.

Rúmur tími er gefinn á milli leikjanna á laugardaginn ef svo fer að framlengja verði fyrri leikinn.

Önnur viðureign ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki verður á Ásvöllum á þriðjudaginn og sú þriðja föstudaginn 26. maí. Mánudagur 29. maí og miðvikudagur 31. maí hafa verið bókaðir fyrir fjórðu og fimmtu viðureignir gerist þörf á þeim.