Um leið og Valskonum er óskað til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn í handbolta sem þær unnu verðskuldað eftir sigur í þriðja leik úrslitanna í Vestmannaeyjum í dag verður að taka ofan hattinn fyrir valkyrjunum hans Sigga Braga. Þær hafa skemmt okkur og fyllt stolti með frábærum árangri á tímabilinu. Höfðu betur í bikarnum gegn Val og stóðu uppi sem deildarmeistarar.

Drottningarnar, Sunna, Hrafnhildur Hanna og allar hinar ætluðu sér auðvitað alla tiltlana þrjá en til þess þurfti allt að ganga upp. Hópurinn of lítill, sagði Siggi í viðtali eftir leik og það munaði um þegar Birna Berg meiddist og gat ekki verið með í úrslitunum gegn Val. Kannski var það púslið sem vantaði þegar á reyndi en það er ekki til neins að velta sér upp úr ef og hefði.

Stelpur, til hamingju með frábæran árangur í vetur og vor. Þið hafið lýst upp Vestmannaeyjar og gert lífið skemmtilegra.

Leikurinn fór 23:25 fyrir Val sem fögnuðu innilega þegar þær tóku á móti Íslandsmeistarabikarnum.

Hrafnhildur Hanna var markahæst Eyjakvenna með 9, Harpa Valey 5, Sunna 4, Ásta Björt 3 og Elísa og Korlina 1 hvor. Marta varði 12 skot.

Silfurlið ÍBV kvenna í handbolta 2023.

Mynd Sigfús Gunnar.