Landakirkja og eldgosið á Heimaey 1973

0
Landakirkja og eldgosið á Heimaey 1973
Ljósmynd/landakirkja.is

Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá upphafi og lokum eldgossins á Heimaey 1973 verður haldin athöfn í Landakirkju, kirkjugarðinum og safnaðarheimilinu, annan í hvítasunnu, mánudaginn 29. maí nk.

Athöfnin hefst kl. 13.00 í Landakirkju þar sem flutt verða blessunarorð og tónlist ásamt 10 mínútna upptöku Ríkisútvarpsins frá svokallaðri eldmessu Þorsteins Lúthers Jónssonar sóknarprests í Landakirkju að kvöldi 22. mars 1973.

Að lokinni athöfn verður gengið út í kirkjugarð og staldrað við sáluhliðið, en rétt 100 ár eru frá því það var tekið í notkun. Þar verður lýst framkvæmdum við fyrsta áfanga stækkunar kirkjugarðsins sem nú er á lokastigi.

Þá verður haldið í safnaðarheimlið þar sem boðið verður upp á kaffi og brugðið upp myndum á tjald þar sem Landakirkja og kirkjugarðurinn koma sérstaklega við sögu.  Má þar nefna eldmessuna, fyrstu guðsþjónustuna að loknu eldgosi 8. júlí 1973 og gjallhreinsun í kirkjugarðinum sumarið og haustið 1973 sem var mikið og vandasamt verk.  Þá verður sýnt innslag úr gosmynd frá BBC sem tekin var í eldmessunni en þá var útlitið í gosinu mjög dökkt.

Sóknarnefnd og prestar Landakirkju standa fyrir athöfninni og er reiknað er með að henni ljúki um kl. 14.30.  Myndasýningin og undirbúningur hennar er unnið í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja og er hluti af dagskrá sem tengist því að í ár eru 50 ár liðin frá upphafi og lokum eldgossins á Heimaey 1973.  Nær allar  ljósmyndir af þeim 30  sem sýndar verða með skýringum í safnaðarheimilinu eru úr safni Sigurgeirs Jónassonar frá Skuld en hann var við  ýmis störf, meira og minna allan gostímann í Eyjum.

Öll hjartanlega velkomin í þessa sérstöku athöfn í Landakirkju á annan í Hvítasunnu mánudaginn 29. maí kl. 13.00- 14.30

Frétt frá Landakirkju