Á vef stjórnarráðsins kemur fram að gerð hefur verið samantekt á ábendingum almennings, sérfræðinga og hagaðila sem leitað var til við undirbúning sjávarútvegsstefnu í verkefninu Auðlindin okkar. Þar má einnig finna upptökur af fundunum, meðal annars frá Vestmannaeyjum.

Samantektin ber heitið Tæpitungulaust og inniheldur ábendingar þeirra 132 sérfræðinga sem samstarfshópar og samráðsnefnd verkefnisins leituðu til. Einnig eru þar ummæli  fundargesta sem tjáðu sig á samræðufundum sem haldnir voru á Akureyri, Eskifirði, Ísafirði, Reykjavík og Vestmannaeyjum. Samræðufundina sóttu um 500 manns og um 5.000 fylgdust með þeim í streymi.

Í samantektinni má jafnframt finna þær athugasemdir sem fram komu í samráðsgátt stjórnvalda við bráðabirgðatillögur samráðsnefndar verkefnisins sem kynntar voru í janúar sl. auk skriflegra svara úr spurningakönnun Félagsvísindastofnunar og ábendinga sem bárust á netfangið [email protected].

Starfshópar verkefnisins leggja nú lokahönd á þær tillögur sem kynntar verða 6. júní nk. Í framhaldinu verða undirbúin lagafrumvörp sem verða lögð fram á vorþingi 2024.

Samantektina, Tæpitungulaust, má finna hér.