ÍBV getur í dag tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í þriðja sinn með sigri á Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði. Staðan í einvígi liðanna er 2-1 ÍBV í vil en Haukar sigruðu í síðasta leik liðanna í Vestmannaeyjum með sex mörkum. Fari svo að ÍBV vinni hafa allir þrír Íslandsmeistaratitlar félagsins unnist í Hafnarfirði en liðið hreppti titilinn síðast árið 2018 í Kaplakrika þegar ÍBV vann þrefalt og þar á undan í ógleymanlegum oddaleik á fyrir fullu húsi á Ásvöllum 2014.

Það verða ekki færri á vellinum í kvöld en fyrir níu árum því uppselt er á leikinn samkvæmt miðasöluappinu Stubb. Það er því betra fyrir þá sem hafa tryggt sér miða að mæta tímanlega en flautað verður til leiks klukkan 19:00.