Umhverfis- og skipulagsráð skipaði fyrir ári síðan starfshóp um undirbúning deiliskipulags íbúðabyggðar við malarvöll og Löngulág. Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Margrét Rós Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúar, ásamt starfsfólki sviðsins voru í starfshópnum. Drífa Árnadóttir, borgarhönnuður hjá Alta, og Pétur Jónsson, landslagsarkitekt hjá Eflu, voru fengin til aðstoðar starfshópnum við mat á hönnunartillögum.

Alls voru 11 aðilar sem sendu inn umsókn um þátttöku að deiliskipulagningu nýja hverfisins. Fimm voru valdir úr þeim hópi til að koma með hugmyndir fyrir svæðið. Um er að ræða heilt hverfi sem gerir ráð fyrir blandaðri byggð með fjölbreyttum íbúðum ásamt 6-10 deilda leikskóla. 

Fimm hugmyndir fyrir svæðið lágu fyrir hópnum til að leggja mat á. Hugmyndirnar áttu Batteríið Arkitektar, Úti og Inni Arkitektar, Kanon arkitektar, Trípólí Arkitektar, og Úrbanistan og Ydda arkitektar. 

Starfshópur Umhverfis- og skipulagsráð lagði til við bæjarstjórn að tillaga Trípólí Arkitekta yrði valin. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna með níu samhljóða atkvæðum. Í tillögunni er gert ráð fyrir þremur byggingarkjörnum fyrir fjölbýlishús og raðhús með litlum inngörðum fyrir miðju. Í útjaðri svæðisins er gert ráð fyrir einbýlishúsum sem þykja tengja svæðið vel við þau einbýlishús sem fyrir eru. Gert er ráð fyrir 6-10 deilda leikskóla við Kirkjuveg og mun trjálundur sem nú þegar er á svæðinu halda sér og það svæði gert enn áhugaverðara til úti- og samvistar.

Þetta kom fram á 1595. fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í dag.

Hér fyrir neðan má sjá teikningar frá Trípólí Arkitektum.