Stórtónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja ásamt fjölda annarra flytjenda í Íþróttamiðstöðinni í gærkvöld, föstudaginn 7. júlí, stóðu sannarlega undir nafni.

Auk lúðrasveitarinnar komu þar fram frábærir söngvarar á borð við Júníus Meyvant (Unnar Gísla Sigurmundsson), Söru og Unu, Sæþór Vídó, Helga Björns, Jónsa og Siggu Guðna. Auk þeirra Karlakór Vestmannaeyja, Kvennakór Vestmannaeyja og kór Landakirkju. Fram kom í kynningu að á sviðinu hafi verið alls 92 flytjendur.

Listamennirnir tóku þekkt lög og sungu ýmist einsöng eða tvísöng. Kórarnir fluttu einnig lagið þekkta Brennið þið vitar með glæsibrag. Tónleikagestir voru vel með á nótunum og tóku undir, fögnuðu flytjendum, klöppuðu og jafnvel dönsuðu. Sannkallað stuðball!

Jarl Sigurgeirsson stjórnandi Lúðrasveitarinnar og skólastjóri Tónlistarskólans stjórnaði tónlistarflutningunum af öryggi og fagmennsku. Bjarni Ólafur Guðmundsson var kynnir og fórst það vel úr hendi. Þessi tónlistarviðburður verður lengi í minnum hafður.