Það er við hæfi að sýna lokaverefni 10. bekkinga í Grunnskóla Vestmannaeyja frá síðasta vori. Þau sýndu lokaverkefni sín í sal Grunnskólans og kom á óvart hversu fjölbreytt þau voru.  

Ásta Hrönn, Wanessa Julia, Guðjón Emil og Clara Björt könnuðu áhrif sykurs á ungt fólk og útkoman er að hann er ekki góður. Þau sýndu líka að margt er hollara og jafnvel betra á bragðið án sykurs. Buðu upp á kökur með og án sykurs sem sönnuðu það. 
Rebekka Rut, Hrafnhildur Sara og Anna Aðalbjörg könnuðu áhrif tónlistar á kvíða og þunglyndi sem er algengara en margur heldur. Niðurstaðan er að tónlist róar, ekki síst hipp hopp og popp. Svo hjálpar klassíkin þegar kemur að því að læra.
Valur Elí, Daníel Emil og Ómar Smári æfa lyftingar í Hressó sex sinnum í viku og notuðu tækifærið til að koma boðskapnum á framfæri. Þeir segja hópinn öflugan og stefni hátt.
Emilíana Erla og Emelía Rós réðust ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, verkefnið er; hver eru langvarandi áhrif kynferðisofbeldis á þolendur.
Þær stöllur Alexandra Ósk, Eva og Sara Margrét könnuðu ferðalög Vestmannaeyinga og niðurstaðan er að Spánn og Tenerife eru vinsælustu staðirnir.
Tómas Runi, Ólafur Már og Alexander er miklir áhugamenn um pílukast. Hafa æft í nokkur ár og fylgjast vel með því sem er að gerast í pílunni.
Magnús Gunnar og Filip Fabian stunda báðir handbolta og efuðust ekki um að ÍBV yrði Íslandsmeistari karla 2023. Þeir könnuðu áhrif Covid á gengi meistaraflokks karla í handbolta.
Selma Rós tók fyrir verkefni sem brennur á Eyjafóki, hvaða áhrif hefur skert fæðingaþjónusta á barnshafandi konur í Vestmannaeyjum. Selma Rós segist alltaf hafa haft áhuga öllu sem viðkemur ljósmóðurstarfinu og niðurstaðan er að þetta hefur mikil áhrif á konurnar og fjölskyldur þeirra. M.a. vegna atvinnumissis og erfitt sé fyrir konurnar að fara upp á land að eignast barn.
Rebekka Rós kannaði muninn á heilbrigðum samböndum og óheilbrigðum og sagði lítið rætt við unglinga um þessi mál. Unglingar geri sér heldur ekki alltaf grein fyrir því hver munurinn er og niðurstaða hennar er, aldrei að fara að sofa reið, í sambandi eigi fólk ekki að keppa hvert við annað, þið eruð saman og þið eruð jöfn. Sem sagt, stutt en hnitmiðað.
Andri og Elís Þór eru báðir í handbolta og þeir veltu því upp hvaða áhrif uppaldir leikmenn hafi á gengi liða í Olís deild karla. Íslandsmeistarar ÍBV karla í handbolta 2023 sýna að góð blanda heimamanna og aðkomuleikmanna skilar árangri.

Af öðrum verkefnum má nefna að Teitur Sindrason, Hákon Tristan Bjarnason og Benóný Þór Benónýsson spurðu, hvernig hafa yfirburðir heimavalla áhrif á frammistöðu liða í NBA? Bernódía Sif spurði, hvað er eftirskóli – er hann tímasóun eða önnur nálgun á lífið? Jón Gunnar Sigurðsson og Sigurður Helgi Kjartansson spurðu hvað er mótorkross? Guðmundur og Kristján Þorgeir veltu því upp af hverju eru rafhlaupahjól góður fararkostur? Erna Sólveig, Anna Sif og Hrafnhildur Hallgrímsdóttir vildu vita hverjir eru helstu áhættuþættir álagsmeiðsla? Kristján Logi og Patrekur Þór vildu vita hvað geri Formúluna svona vinsæla? Birna Dís, Ásdís Halla og Birna María spurðu hvers vegna velur fólk að fara í lýtaaðgerðir? Þá spurði Sarah Elía Ólafsdóttir Tórshamar hvað það er sem gerir áhugaleikhús að leikhúsi.