Guðni Einarsson ritar:

Um 640-650 fullorðnar sauðkindur voru í Vestmannaeyjum þegar eldgosið hófst þann 23. janúar 1973. Af þeim voru um 50 í útigangi í úteyjum, að sögn Sveins Runólfssonar, fyrrverandi landgræðslustjóra. Féð á Heimaey var flutt í Gunnarsholt á Rangárvöllum þar sem því var haldið í einangrun. Fjárstofninn í Vestmannaeyjum var talinn mjög hreinn og laus við alvarlega sauðfjársjúkdóma. 

Brýnt var að flytja allt sauðfé frá Eyjum eins fljótt og auðið var þar sem vikur og aska lagðist yfir alla Heimaey og smaug inn í fjárhús og sum þeirra eyðilögðust alveg,“ segir Sveinn. Flutningur á fénu frá Eyjum hófst 26. janúar 1973. Varnarliðið í Keflavík lagði til þrjár flugvélar, tvær C-47 (Douglas Dakota) og eina C-117 sem er öflugri útgáfa af C-47. Flugvélarnar tóku 37 kindur í hverri ferð. Sveinn segir að ætlunin hafi verið að fljúga upp á Hellu með féð en ekki var hægt að lenda þar vegna ísingar. Því var flogið með kindurnar til Keflavíkur og þeim ekið þaðan á heilbrigð svæði austur í Gunnarsholti. Þar voru til staðar góð hús, nóg hey og góðir sumarhagar. Eyjamennirnir og fjárbændurnir Jón Magnússon í Gerði og Magnús Pétursson frá Kirkjubæ fylgdu kindunum og hirtu um þær í Gunnarsholti. 

 Vestmannaeyjaféð var í raun gamli sunnlenski stofninn því að þar var sauðfé ekki fellt í mæði- og garnaveikinni 1951. Ærnar reyndust frjósamar og mjólkurlagnar og miklar mæður en féð var háfætt miðað við ræktaða stofna uppi á landi,“ segir Sveinn. Landgræðslan lagðist gegn því að féð yrði flutt aftur út í Eyjar vegna ástands gróðursins þar eftir eldgosið. Engu að síður voru tæplega 100 ær fluttar út í Eyjar með bátum í október 1973.  


Myndin tekin 26. janúar 1973. Allt fé var flutt með flugvélum frá Vestmannaeyjum. Sigurður Zophoníasson með dökku derhúfuna. Magnús Guðjónsson frá Reykjum lengst til hægri og spurning um Guðmann Guðmundsson í sandprýði með hlífðargleraugun.
Kindur settar um borð í flugvél og var Jón Magnússon bóndi í Gerði meðal
þeirra sem komu að því . Mynd: Sigurgeir Jónasson

Þeir Jón í Gerði og Magnús frá Kirkjubæ héldu sínu fé í landi. Jón settist að í Gunnarsholti og annaðist þar eyjaféð en Magnús fór fyrst að Geldingalæk og byggði svo íbúðarhús í Gunnarsholti 1977 og flutti þangað. Hann byggði lítið fjárhús og var með fé á meðan hann bjó í Gunnarsholti til ársins 2001. Sveinn segir að Gunnarsholtsbúið hafi keypt allmargar ær frá Eyjum með því fororði að seljendur gætu keypt þær aftur, ef þeir óskuðu þess. Sauðfjárveikivarnir lögðust gegn því að Vestmannaeyjaféð yrði selt almennt til bænda uppi á landi.  

Sveinn segir að Jóni í Gerði hafi tekist að byggja upp einn afurðamesta fjárstofn landsins í Gunnarsholti. „Ærnar skiluðu miklum afurðum þegar þær voru sæddar með hrútasæði frá Ströndum,“ segir Sveinn. „Jón var afburða fjárglöggur og þekkti allar kindurnar í Gunnarsholti. Hann lagði mikla áherslu á skýrsluhald í fjárbókunum.“ Vestmannaeyjafé í eigu Gunnarsholtsbúsins var fargað haustið 1982 og lagðist þá fjárbúskapur á vegum ríkisins þar endanlega af. 


Ólafur Dýrmundsson.

Sveinn Runólfsson.

 Merkileg tilraun sem tókst 

Ólafur Dýrmundsson, doktor í búvísindum og fjárbóndi í frístundum, kynntist Vestmannaeyjafénu í Gunnarsholti. Þegar kom fram undir 1980 vann Ólafur, að beiðni Sveins landgræðslustjóra, að tilraun á Eyjafénu sem stóð í tvö ár. Hún gekk út á að framkalla þrjá burði hjá ánum á tveimur árum og það tókst. Þannig var hægt að setja nýslátruð páskalömb á markað í mars og jólalömb um miðjan desember. Ólafur kom þó nokkuð oft í Gunnarsholt á þessum árum. 

Magnús Magnússon í Dölum á bryggju og Benedkt Sigmundsson sá dökkhærði um borð. Hluti stofnsins var fluttur til Eyja haustið 1973 í óþökk yfirvalda. Mynd: Sigurgeir Jónasson


Kindur í Heimakletti.

„Jón Magnússon var mjög glöggur fjármaður og hafði afskaplega gaman af að tala um féð og fjárbúskapinn. Hann hirti mjög vel um kindurnar,“ segir Ólafur. „Þetta var fallegt fé, bæði kollótt og hyrnt. Það var líka mikið af fallega mislitu fé í því svo sem mórauðu, svörtu og flekkóttu. Ég man enn eftir sumum hrútunum, sérstaklega einum svarflekkóttum.“ 

Löngu eftir að féð var aftur komið út í Eyjar fór Ólafur ásamt Halldóri Runólfssyni yfirdýralækni og Katrínu Andrésdóttur héraðsdýralækni til að athuga með útigangsfé í úteyjunum. Kvartað hafði verið yfir meintum illum aðbúnaði útigangsfjárins. Þau flugu frá Bakkaflugvelli og skoðuðu féð og aðstæður þess úr flugvélinni í lágflugi. Töluverður vindstrekkingur var. Kindurnar höfðu valið sér skjól upp undir brúnum og lágu þar makindalega. Eftir flugið var haldinn fundur á bæjarskrifstofunni með nokkrum fjáreigendum í Vestmannaeyjum.  

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri í ágætu lagi og sannfærðumst um að það væri betra skjól fyrir féð í úteyjunum en við höfðum áður reiknað með,“ segir Ólafur. Hann segir að eyjabeit í Vestmannaeyjum sé allt öðru vísi en t.d. í Breiðafjarðareyjum þar sem er mikil fjörubeit. Í úteyjum Vestmannaeyja er góð landbeit, fyrst og fremst vegna mikillar áburðargjafar frá sjófuglum. Eyjarnar eru því mjög grösugar. Eyjabeit eins og tíðkast hefur í Vestmannaeyjum þekkist hvergi annars staðar á landinu. Ólafur segir að gögn um hrútasýningar sýni að hrútar hafi verið skoðaðir í Vestmannaeyjum. Meðal annars átti Jón í Gerði verðlaunahrúta.  

„Það urðu aldrei fjárskipti í Vestmannaeyjum. Það er ljóst að fjárstofninn í Vestmannaeyjum er mjög gamall og líklega einn af upprunalegustu fjárstofnum í landinu. Ég þori ekki að segja hve gamall hann er, en hann gæti þess vegna verið allt frá landnámi. Ég get ekki ímyndað mér að þarna hafi orðið fjárlaust,“ segir Ólafur. Stofninn hefur í áranna rás verið kynbættur með hrútum frá, að því er talið var, ósýktum svæðum. „Eftir því sem ég kemst næst eru sterkustu áhrifin upp úr miðri 20. öld frá hrútum úr Vestur-Skaftafellssýslu, sérstaklega frá Norðurhjáleigu í Álftaveri og Seglbúðum í Landbroti. Einnig fengu Eyjamenn hrúta úr Öræfunum. Mín niðurstaða er sú að þarna sé alveg eldgamall stofn sem hefur íblandast fé, sérstaklega úr Vestur-Skaftafellsýslu og jafnvel annars staðar frá.” 

Vestmannaeyingar hafa lengi gefið út sína eigin markaskrá og eru mörk þeirra einnig í landsmarkaskrá eins og önnur fjármörk í landinu. 

Hrútar fengu lögreglufylgd í land 

Sigurður Sigurðarson, sem þá var dýralæknir Sauðfjársjúkdómanefndar, kynntist Eyjafénu í Gunnarsholti og segir að féð hafi verið afskaplega heilsuhraust. Því var mikilvægt að varðveita heilbrigði kindanna og að forða fénu frá mögulegri smithættu. Þess má geta að ekki þarf að bólusetja fé í Vestmannaeyjum við garnaveiki og þar hefur aldrei komið upp riða svo vitað sé. 

Strangar reglur gilda um flutning sauðfjár til Vestmannaeyja og hafa gilt lengi. Sigurður rifjaði upp að haustið 2003 hafi verið fluttir hrútar til Eyja og lék grunur á að tveir þeirra hefðu farið þangað í óleyfi. Sigurður brást skjótt við og kærði málið til lögreglu. Fjárhúsið var innsiglað, hrútarnir handsamaðir og fluttir í lögreglufylgd með Herjólfi til Þorlákshafnar. 

Ólafur Dýrmundsson fór með Sigurði dýralækni til Þorlákshafnar að taka við hrútunum og aka þeim að Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum þar sem þeim var lógað. Hrútarnir voru frá bæ á Suðurlandi og segir Ólafur að þeir hafi sem betur fer verið fluttir frá Vestmannaeyjum. Skömmu eftir þetta kom upp riða á svæðinu sem hrútarnir voru frá. Sigurður segir að á þessu svæði sé einnig garnaveiki sem ekki er til í Vestmannaeyjum. Í framhaldi af þess fóru þeir Sigurður og Ólafur til Vestmannaeyja og héldu fund með fjáreigendum. 

Fjárbúskapurinn á sér langa sögu 

Sauðfé hefur verið haldið í Vestmannaeyjum öldum saman. Sigfús M. Johnsen, bæjarfógeti í Vestmannaeyjum 1940-1949, fjallar um fjárbúskap Eyjamanna í 2. bindi verks síns Sögu Vestmannaeyja (Reykjavík 1946). Hann segir m.a. að allmargt fé hafi verið flutt ofan af landi í haga í Vestmannaeyjum, einkum á vorin. Ólafur Dýrmundsson benti á að Landeyjahrepparnir séu afréttarlausir, einir hreppa í Rangárvallasýslu. Þetta hefur því komið sér vel fyrir Landeyinga. 

Sigfús segir að í kringum árið 1700 hafi verið nær 700 fjár í Vestmannaeyjum, þar af rúmlega 100 lömb. Sauðfjártalan var komin í 900 árið 1787 og var þriðjungurinn lömb. Fjártalan mun hafa verið töluvert hærri á 16. öld og fyrr. Árið 1832 er fjártalan um 1.100 og 1881 er fullorðið fé talið rúm 1.400 en um 1.200 árið 1892. Í byrjun 20. aldar var féð frá 1.800-2.000 að meðtöldum lömbum. 

Sigfús getur þess að fjárfellir hafi aldrei orðið í Vestmannaeyjum, svo vitað sé. Þegar fjárfellir var mestur hér á landi í móðuharðindunum „drapst engin skepna í Eyjum úr fjárpest þeirri, er þá geisaði,” skrifar Sigfús. Hann segir ekki hvaða pest það var en þá horféll búfé í stórum stíl og rúmlega 20% landsmanna fórust, eða um 10.500 manns.