Aðsend grein:

Hún langalangaamma mín -Guðrún Þórðardóttir- var dæmd til dauða árið 1857 fyrir það að eignast barn sem var getið af fósturföður hennar. Dómnum var aldrei fullnægt. Frá henni eru komnir 1886 afkomendur, nú á lífi eru 1.783 einstaklingar. Hvorki ég né þau hefðum nokkurn tímann orðið til hefði dómnum yfir langalangömmu verið framfylgt.


Þrátt fyrir ítrekaða leit fann ég ekki mynd af henni langalangömmu en þeim mun fleiri af langalangafa og börnum þeirra. Hún gæti allt eins hafa litið svona út, falleg eins og konurnar almennt eru í þessum ættlegg.

Barátta við fátækt og föðurmissir

Langalangaamma sem fékk nafnið Guðrún, var fædd í Götu í Vestmannaeyjum árið 1839. Foreldrar hennar, Guðríður og Þórður, voru örsnauð. Guðrún var þeirra eina barn. Sjálfsagt hefur fátæktin og þurrbúðarhokrið í Eyjum orðið til þess að Guðríður og Þórður freistuðu gæfunnar á meginlandinu og fluttust að Hallgeirshjáleigu í Austur-Landeyjum. Lítið varð þó úr þeirri gæfu því Þórður drukknaði við róðra 1851. Þar með voru örlög þess búskapar ráðin. Heimilið var brotið upp og mæðgurnar urðu viðskila þar sem Guðríður réði sig sem ráðskonu að Húsgarði á Landi en Guðrún, þá 12 ára, var gerð að vinnukonu á öðrum bæ.


Dæmigerð húsakynni þess tíma.

Örlögin spinna þráð

Á Húsgarði bjó þá ungur ekkill að nafni Sigurður Ólafsson. Innan fárra mánaða var Guðríður orðin lögleg einkona hans. Auðvelt er að gera sér í hugarlund að Guðríði hafi þótt það betra hlutskipti að verða eiginkona en vinnukona enda hlutskipti í vinnumennsku oftast slæm. Í krafti hinnar nýju stöðu gat hún einnig fengið dóttur sína -langalangömmu mína- til sín og búið henni heimili. Lítið vissi hún hvaða afleiðingar það ætti eftir að hafa.

Barneign

1857 ól langalangamma mín, Guðrún, son sem fékk nafnið Friðrik. Barnsfaðirinn var Sigurður Ólafsson, fósturfaðir hennar. Enga tilraun gerðu þau til að leyna faðerninu og nánast er öruggt að hvorugt þeirra hefur gert sér grein fyrir því hversu alvarleg viðurlögin væru. Dauðadómur.

Orð langalangömmu eru athyglisverð

Margt er athyglisvert í dómsskjölum. Eitt af því sem ekki er hægt annað en að hnjóta um eru orð langalangömmu þar sem hún segir fyrir dómi:

“„Mér var ókunnugt um hversu hart straff lögin leggja við barneign með stjúpföður. Hvorki hefur hann hrætt mig eða brúkað hótanir við mig til þessa.“ ”

— Guðrún Þórðardóttir fyrir dómi 1857

Kannski á ekki að lesa of mikið í þetta en óneitanlega verður manni hugsað til þess að hafi fósturfaðir hennar hótað henni og þvingað til samfara gæti hann þá ekki eins hafa hótað henni til að bera ljúgvitni? Á móti kemur að sjálfur færðist Sigurður aldrei undan og dró aldrei fjöður yfir sinn hluta. Aldrei gerði hann tilraun til að draga úr sínum hluta eða neita fyrir faðernið. Á sama hátt bar móðir Guðrúnar -langalangalangaamma mín- að Sigurður hafi ætíð reynst henni ljúfur og góður. Slíkt hið sama gerði annað heimilisfólk. Ekkert þeirra hafði heldur orðið var við neinn samdrátt milli fósturdóttur og fósturföður. Fátt getur maður vitað í dag með vissu en eftir því sem maður skoðar meira vakna fleiri spurningar.

Hún skyldi gjalda

Eitt er þó með öllu ljóst og kristallast vel í vörn langalangömmu. Aðstöðumunur þeirra tveggja, fósturdótturinnar og fósturföðurins var gríðarlegur. Stúlkan var fósturföður sínum félagslega undirgefin, hann þar að auki húsbóndi hennar og átti í samræmi við það að vera siðferðislegur leiðtogi hennar og skjól gegn illu. Hún var ung og óreynd og hafði nýverið misst föður sinn og send í fóstur til vandalausra. Hann var reyndur maður og ráðsettur. Ekkert af þessu varð henni þó til neinna málsbóta. Hún skyldi gjalda.

Dauðadómur

Allt að öllu þá féll dauðadómur í málinu í íslenskum Landsrétti árið 1857 og hann var svo staðfestur í hæstarétti í Kaupmannahöfn áið 1858. Langalangamma skyldi tekin af lífi, rétt eins og fóstur- og barnsfaðir hennar.

Lífsgjöfin

Dómnum var aldrei fullnægt. Ef til vill bærðist efi um réttlæti dómsins einhverstaðar. Ef til vill var um að kenna slæglegum vinnubrögðum íslenskra embættismanna. Ef til vill gripu æðri máttarvöld inn í til að tryggja mér og hinum 1885 einstaklingunum sem frá henni eru komin tilveru hér á jörð. Seinasta atriðið verður þó að teljast ólíklegast enda hér sagt til gamans.

Nýtt líf í Vestmannaeyjum

Langalangamma gat þó ekki verið áfram á heimili móður sinnar og fósturföður sem aldrei var þó gerð nein refsing. Ekki gat hún heldur haft barnið hjá sér, það ólst upp hjá föður sínum og móðurömmu sem áfram voru gift. Langamma fluttist hins vegar til Vestmannaeyja á ný og giftist stuttu síðar Jóni Vigfússyni, langalangafa mínum, bónda í Túni við Kirkjubæi. Saman eignuðust þau 7 börn sem mynda þann stóra og glæsilega ættboga sem áður hefur verið vikið að.

Jon Vigfússon, langalangafi ásamt börnum sínum: Þórunni (frá Þingholti), Vigfúsi (frá Holti), Sigurlín (Túni), Jóni (í Gvendó), Jóhanni (Brekku) og langaafa Guðjóni (Oddstöðum).

Betra líf

Svo virðist sem almættið hafi viljað bæta langalangömmu harðræðið sem hún hafði orðið að upplifa. Fátæktina, föðurmissirinn, barneignina með fósturföðurnum, fráleiddan dauðadóminn, aðskilnaðinn við barn sitt og allt hitt. Samvistum þeirra Jóns og Guðrúnar er lýst sem einlægum, fallegum og innilegum.

Gæðakona, elskuð og virt

Langalangamma lést 27. ágúst 1890, eingöngu 51 árs, fjórum árum yngri en ég er núna. Þá var yngsta dóttir hennar níu ára. Í Blik (1958) segir Þorsteinn Víglundsson um hana: „Guðrún Þórðardóttir húsfreyja dó frá öllum barnahópnum sínum 27. ágúst 1890. Hún var orðlögð gæðakona, elskuð og virt af öllum sem kynntust henni. Hjónaband Jóns og Guðrúnar var ástúðlegt og traust.“

Séra Oddgeir Guðmundsson flutti einkar hlýja og hjartnæma húskveðju við kistu langalangömmu. Þar jós hann lofi um bæði hana og Jón, langalangafa. Í orðum sínum sló hann streng sem sýnir að þrátt fyrir harðræðið hafi hún litið sátt yfir farinn veg og það sem hún skildi eftir. Þessi orð snerta mann óneitanlega:

“ „Hin framliðna var einnig að því leyti lánsmaður, að guð hafði gefið henni mannvænleg og efnileg börn. Og hver er gæfusamur, ég vil segja ríkur, ef ekki sá sem á banasænginni getur glatt sig við þá vissu að eftir hann lifa góð og efnileg börn, foreldrum til sóma og föðurlandinu til uppbyggingar, og þessa von hafði hún sem hér liggur liðið lík.“”

— Úr húskveðju séra Oddgeirs, 1890

 

Fylgt úr hlaði

Það hefði nú sennilega margt þróast öðruvísi ef þeir hefðu drepið hana langalangömmu. Meðal þessa fólks sem aldrei hefði fengið líf eru -svo einhverjir séu nefndir- Jarl Sigurgeirs, allir Þingholtararnir (Palli Guðmunds, Huginn á Huginn, Emma Páls, Biggi Huldu, Steina Páls, Kiddi og Sævald á Berg og svo margt annað fólk), Eygló Elíasar, Gummi Ingi og Ingó Esrasynir, Inga Hrönn dóttir Laugja í smið, Gvendur Fúsa, Ásta Páls og Lulla, Siggi Jóns fyrrverandi bæjarstóri í Garði, Fúsi lögga frændi minn í Þorlákshöfn og mamma hans Brynja, Pétur Björns hjá Ísfell, Tommi Páls, Rúna á Bolsó, Bubba í Þorlaugagerði og öll hin hátt í 2000 sem frá henni eru komin.

(Þessi skrif byggja á heimildum úr bókinni „Konur fyrir rétti“, ritinu Blik (1958), grúski á Íslendingabók og síðast en ekki síst spjalli við móður mína sem er flestu fólki betur að sér um mál sem þessi og svo margt annað.)

Elliði Vignisson.