„Rangt er farið með að hitaveitan í Vestmannaeyjum hafi undanfarna mánuði verið keyrð á olíu vegna skerðinga Landsvirkjunar,“ segir í tilkynningu frá frá HS Veitum vegna ummæla bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar á samfélagsmiðlum þann 8. maí sl. og birtust á Eyjafréttum í gær. „Í stað þess hefur hitaveitan verið knúin áfram með grænu rafmagni því það er bæði umhverfisvænna og hagstæðara fyrir viðskiptavini. Er það í samræmi við markmið bæjaryfirvalda um Grænu eyjuna (100% orkuskipti í Vestmannaeyjum) og viljayfirlýsingu HS Veitna, Vestmannaeyjabæjar og fleiri aðila um orkuskipti og aukið afhendingaröryggi í Vestmannaeyjum.“

„Í ljósi fyrirséðra skerðinga Landsvirkjunar um síðustu áramót blasti við að keyra þyrfti fjarvarmaveituna á óhagstæðri olíu einn þriðja hluta ársins. Veldur það svo miklum viðbótarkostnaði að hagkvæmni þess að keyra framleiðsluna á skerðanlegri orku hinn hluta ársins  verður að engu.  Við blasir að raforkuskortur á landinu verður viðvarandi næstu árin.  Hagkvæmara er því að kaupa forgangsorku allt árið en að kaupa skerðanlega raforku hluta ársins og olíu þess á milli.  Hinsvegar er forgangsorkan tvöfalt dýrari en skerðanleg raforka og því varð að hækka gjaldskrá hitaveitunnar sem því nemur.  Orkukaupakostnaður er um 75% af rekstrarkostnaði veitunnar og hefur því afgerandi áhrif á gjaldskrá hverju sinni.“

Mynd – Sjóvarmadælustöð HS Veitna í Vestmannaeyjum.