Nær allar umsagnir um áform þýska fyrirtækisins, Heidelberg Cement Pozzolanic Materials ehf. (HPM) um mikla efnis­töku af hafs­botni við strönd­ina við Land­eyja- og Eyja­fjallasand eru neikvæðar. Gert er ráð fyrir að dæla upp allt að 75 milljón tonnum af sandi á 30 árum. Umsagnaraðilar benda á mikið rask á sjávarbotni og að viðkvæmu vistkerfi og uppeldissvæði mikilvægra fisktegunda sé stefnt í hættu. Óvissa sé um áhrifin á Landeyjahöfn og mikilvægar lagnir, vatn, rafmagn og ljósleiðarar gætu verið í hættu. Þýska fyrirtækið segir að saman geti farið nýting á efni um leið og veru­lega dragi úr sand­b­urði að Land­eyja­höfn. Ef vel takist til get­i sandnámið minnkað veru­lega kostnað við viðhalds­dýpk­un Vega­gerðar­inn­ar í og við höfn­ina.

Þetta er mikil framkvæmd, gert er ráð fyrir sérstakri höfn, vestan Þorlákshafnar þar sem efninu er skipað í land. Í sama tilgangi verður heilt fjall, Litla Sandfell í Þrengslunum flutt til Þorlákshafnar og allt flutt til Þýskalands til íblönd­un­ar við sements­fram­leiðslu. Notk­un efn­is­ins á að draga  veru­lega úr kol­efn­is­los­un við fram­leiðsluna. Og miklir hagsmunir eru í húfi og sér Ölfus fram á fjölda vel launaðra starfa við verksmiðju sem reist verður.

 Mikilvægt svæði fyrir Vestmannaeyjar

Á fundi sínum í síðasta mánuði ítrekaði bæjarráð Vestmannaeyja áhyggjur sínar af efnistökunni. „Sérstaklega þar sem um er að ræða mikilvægt svæði fyrir sveitarfélagið er lýtur að siglingum um höfnina, hrygningarsvæði fiska og innviðum á hafsbotni,“ segir í bókun bæjarráðs og er vísað til reynslunnar af sanddælingu í og við Landeyjahöfn þar sem áætlanir hafa illa staðist. Er sleginn varnagli við efnistöku við Landeyjahöfn enda erfitt að sjá fyrir hvernig til muni takast svo tryggt verði að hún hafi ekki áhrif til hins verra á Landeyjahöfn. Ekki verði tjón á vatnslögnum, rafstrengjum og ljósleiðurum Eyjamanna. Vestmannaeyjabær mun senda umsögn um málið til Skipulagsstofnunar og óska eftir fundi um málið.

Mynd: Dæluskip Björgunar að störfum í Landeyjahöfn. Björgun kemur að dælingunni með Þjóðverjunum.

Nánar í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.