ÁtVR – Átthagafélag Vestmannaeyinga á Reykjavíkursvæðinu fagnaði 30 ára afmæli sínu með hátíð að kvöldi síðasta vetrardags, 24. apríl. Veislan var haldin í sal Fylkishallarinnar í Reykjavík. Um 90 manns sóttu viðburðinn. Boðið var upp á ljúffengar veitingar, mat og drykk, eins og hver gat í sig látið og fjölbreytt skemmtiatriði. 

Guðrún Erlingsdóttir, formaður ÁtVR, setti hátíðina og bauð gesti velkomna. Hún sagði að afmælisveislan ætti að vera hátíðleg, skemmtileg og Eyjaleg. Þau markmið náðust öll. Guðrún sagði einnig frá starfi félagsins á undanförnum árum.  Félagið hefur m.a. staðið fyrir gosmessum og goskaffi í kringum 23. janúar ár hvert og aðventukvöldum í Seljakirkju. Þá átti ÁtVR mikinn þátt í framlagi Eyjamanna í Ráðhúsi Reykjavíkur á Menningarnótt 2023.    

Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, var veislustjóri og sagði sögur frá uppvaxtarárum sínum í Eyjum á milli atriða. Eins og aðrir peyjar var Palli snemma farinn að kíkja á stelpurnar og var oft skotinn í þeim, enda Eyjameyjar fegurðardrottningar upp til hópa eins og alkunna er.  Hann talaði um kærusturnar sem hann eignaðist ekki, æskudrauma og ástarsorgir unglingsins. Auk þess ýmis prakkarastrik og slagsmálamenninguna fyrir utan Samkomuhús Vestmannaeyja eftir böll. Þar naut Páll þess að geta fylgst með atganginum út um skrifstofuglugga símstöðvarstjórans gegnt gömlu Höllinni. Góður rómur var gerður að þessum skemmtisögum og auðfundið að þær áttu samhljóm í reynslu margra viðstaddra.  

Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, rifjaði upp stofnun ÁtVR en hún var fyrsti formaður félagsins. Nokkur aðdragandi var að stofnuninni áður en formlegur stofnfundur var í sal AKOGES í Reykjavík í febrúar 1994. Félagsstarfið varð fljótt öflugt og beindist ekki síst að stuðningi við ÍBV enda var gengi liða félagsins mjög gott á þessum árum.  

Kristín sagði að nafn félagsins hafi komið þannig til að ágætur Eyjamaður, sem hafði sagt skilið við Bakkus, kom á undirbúningsfund sem haldinn var á vínveitingastað. Nokkrir fundarmenn höfðu fengið sér í glas. Umræddur fundargestur furðaði sig á því og kvaðst hafa haldið að hann væri að mæta á fund en ekki drykkjusamkomu. Þetta væri bara eins og ÁTVR ( Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins)! Viðstaddir hentu þessi orð á lofti og var ákveðið að nafn félagsins skyldi passa við skammstöfunina.   

Eygló Scheving söngkona flutti nokkur þjóðhátíðarlög og fleiri Eyjalög við eigin undirleik. Hún talaði um gildi þeirra fyrir Vestmannaeyinga og hve miklar gersemar þessi lög eru í raun.   

VÆB bræður, þeir Matthías Davíð og Hálfdán Helgi Matthíassynir sem gerðu garðinn frægan í Söngvakeppninni í vetur, skrúfuðu stuðvísitöluna heldur betur upp þegar þeir hófu upp raustir sínar. Íklæddir dúnúlpum og risastórum sólgleraugum sungu þeir og dönsuðu vel þekkt lög og önnur minna  þekkt við taktfasta tónlist. Piltarnir fengu standandi lófaklapp að lokum og bros á hverju andliti. 

Hópur afkomenda fjölskyldunnar í Engey skemmtu síðan gestum  með söng og hljóðfæraleik. Fyrir hópnum fór Rúnar Ingi Guðjónsson. Þau fluttu eldri og yngri þjóðhátíðarlög og hvöttu gesti til að taka undir. Undir lokin var opnaður aðgangur að hljóðnemanum. Dagur Sigurðsson söngvari nýtti tækifærið og skemmti viðstöddum með söng sínum.  

Afmælishátíðin var hin besta skemmtun og Átthagafélagi Vestmannaeyinga á Reykjavíkursvæðinu til sóma.


Stjórn ÁtVR. F.v.: Eygló Egilsdóttir, Perla Björk Egilsdóttir, Guðrún Erlingsdóttir formaður og Hjördís Jóhannesdóttir. Auk þeirra er Védís Guðmundsdóttir í stjórninni.


Hópur söngvara og hljóðfæraleikara sem á ættir að rekja til Engeyjar í Vestmannaeyjum skemmti gestum. Hópurinn fékk mjög góðar undirtektir.


Eygló Scheving söngkona flutti mörg Eyjalög og talaði um mikilvægi þeirra fyrir Vestmannaeyinga.


Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, var veislustjóri. Hann skemmti
gestum með sögum frá uppvaxtarárum sínum.


Kristín Ástgeirsdóttir var fyrsti formaður ÁtVR. Hún rifjaði upp stofnun
félagsins 1994 og aðdragandann að stofnun þess.


VÆB bræður rifu stemmninguna upp með kraftmiklum flutningi og
fjörlegri framkomu.